Hvenær er gestur góður?

Hvenær er gestur góður?

Mynd stolið af síðu Microbar

Það er oftast gaman að fá góða gesti en stundum er enn meira gaman þegar þeir fara aftur.  Hvað er þá góður gestur, er það einhver sem er afar sjaldgæfur og maður sér aldrei og sem kemur aldrei aftur að heimsón lokinni?  Eða er það kannski sá sem er reglulegur gestur og maður gengur að vísum? Hann kemur alltaf aftur en verður þá kannski ekki eins spennandi eða hvað?  Rómantískur gestur hlítur alltaf að vera spennandi?  Við getum amk verið sammála því að gestur sem er leiðinlegur og óspennandi er ekki góður gestur og manni er einhvern veginn sama þegar hann fer og hefur litlar áhyggjur ef hann kemur aldrei aftur.  Hér erum við komin dálítið út á heimspekilegan ís, ég veit.

En  talandi um gesti þá vill nefnilega svo til að núna er góður gestur á krana á Microbar.  Já þetta er sjaldséður gestur, gestur sem kemur aldrei aftur þegar hann er farinn og það sem meira er þá er hann hér í boði ástarinnar.
Já hann Steini á Micro gekk nefnilega í það heilaga á dögunum og bruggaði að því tilefni öl sem kallað er ástarmjöður.  Um er að ræða pale ale með rauðleitum blæ.  4,7% karl, ofsalega ljúfur og þægilegur bjór.  Dálítið þurr á tungu, notaleg beiskja og meðalgóð fylling.  Ég held að fyrir þá sem vilja smakka eitthvað ljúft, einstakt og eitthvað sem kemur líkast til aldrei aftur á krana að þá er um að gera að renna við á Microbar og láta vaða.  Ef Steini er á staðnum ættu menn jafnvel að smella á hann einum kossi í boði Amor.

Svo er það spurningin sem ég hef stundum átt erfitt með að svara.  Hvort er betra að smakka góðan bjór sem maður mun aldrei smakka aftur og komast þannig á bragðið en vitandi það að það sé svo bara allt búið.  Eða bara alveg að sleppa því að smakka en missa þá af því að hafa upplifað eitthvað einstakt?  Talandi um ástina, þá mætti heimfæra þetta þannig, reyndar vel þekkt spurning, er betra að elska og missa eða hafa aldrei elskað?
Já ég held ég hætti hér, þetta er orðið of heimspekilegt og væmið….er með tár í hvörmum þegar þetta er ritað svei mér þá.

p.s.  Pínu óheppileg merking á miðanum eða hvað?  Vonandi ekki dulið hróp á hjálp?  SOS?  😉