Hoegaarden á krana – frábæri sumardrykkurinn í stóra vinalega glasinu!

Image

Að brugga bjór með hveitikorni er ævaforn bruggaðferð sem hvaða Mesopotamiumaður sem er gæti staðfest ef hann væri bara á lífi í dag. Hveiti er í raun bara ein gerðin af mörgum korntegundum sem hægt er að nota í bjórgerð. Í dag er maltað bygg hins vegar langvinsælasta kornið en vissulega nota menn hveitið líka. Hveitibjór nútímans er líklega þekktastur frá Þýskaland og Belgíu en þessar þjóðir brugga dálítið ólíkar gerðir hveitibjórs. Belgar eru frægir fyrir sinn hvíta bjór, belgian witbier eða biere blanche eins og stíllinn er kallaður líka. Um er að ræða hveitibjór sem er alltaf ósíaður og fær því á sig mjólkurkenndan blæ í réttri lýsingu, hann er nánast hvítur!
Hoegaarden er belgískur hvítbjór sem segja má að sé fyrirmynd allra nútíma hvítbjóra frá Belgíu. Nafnið er dregið af smáþorpi með sama nafni sem bendlað hefur verið við þennan bjórstíl í marga áratugi en á „gullárum“ Hoeagaarden þorpsins á 16. öld var haugur af bruggurum sem gerðu hvítbjór eða ein 30 „brugghús“ þegar mest var og þ.m.t. klaustur nokkuð sem opnaði reyndar 100 árum áður.  Já já Guðsmenn fortíðar voru ofsalega duglegir að gera bjór og jafnvel vín.  Þetta breyttist hins vegar allt með tilkomu hins ljósa pilsner bjórs sem náði furðu fljótt gríðarlegum vinslældum um alla veröld. Menn vildu auðvitað taka þátt í æðinu og hættu því að brugga hvítbjórinn og snéru sér að þessar tekjulind.  Hvar var hugsjónin á þessum tíma, ég bara spyr? Tvær heimsstyjaldir hjálpuðu heldur ekki til og þannig lagði síðasta hvítbjórs brugghúsið í Hoegaarden upp laupana árið 1950.
Nokkrum árum síðar hins vegar, ákvað maður nokkur að nafni Pierre Celis að endurvekja stílinn enda fólk farið að sakna gamla góða hvítbjórsins á þessum slóðum. Celis opnaði þannig eftir nokkuð brask brugghús árið 1966 sem bruggaði einungis gamla góða hvítbjórinn. Brugghúsið varð fljótlega þekkt sem Hoegaarden brugghús og var eina sinna tegundir um langt skeið og sætti mikilla vinsælda, belgíski hvítbjórinn var þannig endurfæddur. Celis karlinn lenti hins vegar í fjárhagsvandræðum eftir að brugghúsið hans brann árið 1985 og þurfti að leita til bruggrisans Interbrew eða InBev eins og það heitir í dag. Þar með eignaðist ein stærsta bruggsamsteypa veraldar Hoegaarden og á enn þann dag í dag. Bjórinn er engu að síður stórgóður enn í dag og gríðarlega vinsæll. Það tíðkaðist á þessum slóðum að krydda hvítbjórinn með coriander fræum og appelsínuberki líklega í upphafi til að draga úr súra keimnum sem einkenndi bjórstílinn en notast var við villiger á þeim tíma en slíkt ger gefur af sér afar súran „funky“ keim. Þessi hefð hefur svo bara haldist áfram enda gæðir það bjórinn meira flækjustig og sérkenni.

Hoegaarden er ofsalega mildur og ljúfur bjór af gerðinni öl eða yfirgerjaður bjór. Þessi bruggaðferð gæðir bjórinn meira bragði en menn eiga að venjast í lagerbjór.  Gerið fær að leika lausum hala og líður vel og losar út í bjórinn haug af dásamlegum esterum og öðru góðgæti sem gefur flókið og notalegt bragð. Bragð sem reyndar truflar fólk sem vant er hinum látlausa og leiðinlega lager. Hvað um það, þetta þýðir ekki að hér sé einhver bragðbomba á ferð en maður finnur þó dálítið fyrir kóríander og berkinum og svo er bjórinn örlítið kryddaður og frúttaður þar sem epli eða perur koma við sögu og jafnvel smá hunang.  Bjórinn er einfaldlega dásamlegur alveg ískaldur í sumar og sól og reyndar stórvarasamur þar sem hann er svo auðdrekkanlegur að maður er fljótur að klára nokkra lítra af honum ef maður er ekki á varðbergi, sérstaklega þegar maður fær hann í ofvaxna flotta Hoegaarden glasinu.
En afhverju er ég að skrifa um þennan bjór núna, hann hefur verið fáanlegur lengi hér í vínbúðum og börum í flösku. Jú nú er það nefnilega svo að þessi flotti sumarkarl fæst nú á krana á VegamótumÖlstofunni, Forréttabarnum, K-bar, KOL Resturant og Café Flora . Þetta verða að teljast góðar fréttir ekki satt?

Drekktu hann ískaldan á meðan þú grillar ketið, sötraðu hann með léttu sallati eða humar eða dreyptu á honum með sætum ávaxtabaseruðum eftirréttum.  Hvernig sem er, aðal atriðið er bara að smakka kauða.

Góðar veigar í sólinni…sólveigar?

Nú er sólin að koma fram og þá er gott að drekka góðar veigar...sólveigar? „Sumarið er tíminn þegar kvenfólk springur út“ söng skáldið eitt sinn og vissulega er eitthvað sannleikskorn í því.  Sumarið er einnig tíminn fyrir sól og svalandi  veigar eða það finnst okkur hér á bjórspeki amk.  Það vill svo skemmtilega til að Borg brugghús virðist líka sömu skoðunnar því þeir hafa nú skapað enn einn bjórinn, sumarveigar sem  þeir kalla Sólveig og er rétt að taka það fram að undirritaður er stórhrifinn af nafngiftinni enda ekki annað hægt ég meina kommon, sól og veigar! Það sama á reyndar við um bjórinn sem er stórgóður.  Um ræðir þýskan hveitibjór með haug af humlum af amrískum toga og má því tala hér um amerískþýskan hveiti IPA en þessi bjórstíll hefur verið dálítið vinsæll undanfarið meðal bjórnörda.  Með þessu móti fær maður fram svalandi áhrif hveitibjórsins sem er svo dásamlegur í sumarsólinni en svo þetta ómótstæðilega humalkick úr humlunum sem gerir bjórinn svo vanabindandi.  Þessa eiginleika tekst þeim hjá Borg vel að ná fram að mati okkar hér.  Bjórinn er fallegur í glasi, gruggugur og flottur með myndar haus.  Í nefi er þessi einkennandi gerkeimur sem gefur svo áberandi ávaxtakeim sem minnir helst á banana.  Humlarnir koma svo einnig vel fram og tvinnast inn í þetta með mjög skemmtilegri útkomu. Í munni er bjórinn afar hressandi, fylling í meðallagi, hann er mildur og svalandi eins og sumarbjór á að vera og humlarnir alveg mátulega áberandi með sína beiskju og blómlegheit.  Ég myndi segja að hér væri frábær bjór fyrir þá sem fíla hveitibjórinn en vilja svo eitthvað aðeins meira bit.  Þessi bjór verður einn af sumarbjórunum okkar hér á Bjórspekinni þetta árið.

Það má svo taka það fram að bjórinn fæst nú á krana víða, m.a. á Skúla Craft Bar og líklega víðar og svo er hann kominn í ríkið líka?