Skaði er skeður í Ölvisholti?

Skaði er skeður í Ölvisholti

Árstíðarbjórar eru orðnir heldur betur inn í dag hér á landi.  Litlu brugghúsin keppast við að brugga sérstaka bjóra fyrir sérstök tækifæri eða árstíðir.  Jólabjórinn og páskabjórinn eru t.d. nú orðið stór hluti af þessum hátíðum í hjörtu margra og í seinni tíð hafa þorrabjórar, oktoberfestbjórar og jafnvel sumarbjórar bætst í hópinn.   Árstíðabjór, eða eins og þeir segja vestanhafs, season beer er einfaldlega bjór sem bruggaður er fyrir ákveðin tíma árs og er því til í litlu magni og í stuttan tíma.  Fyrir vikið verður bjórinn dálítið meira spes og spennandi.  Mörg brugghús gera alltaf fasta árstíðarbjóra sem maður getur treyst á frá ári til árs  á meðan önnur koma með nýjar útgáfur ár hvert.  Þetta uppátæki færir bjórnum enn meiri sérstöðu því þegar hann er búinn þá kemur hann jú aldrei aftur.

Ölvisholt brugghús hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og hafa þeir í gegnum tíðina teflt fram framúrskarandi árstíðarbjórum sem aldrei eru eins á milli ára. Má þar nefna hina mögnuðu Jólabjóra sem oftast liggja í efstu sætum í smakkprófum, páskabjóra og nú síðast sumarbjórinn Röðul sem er sérlega góður IPA.  Sumarbjórinn hefur verið dálítið óskilgreint hugtak hér á landi en menn eru hér frekar nýlega farnir að brugga bjór sem þeir tengja við þennan árstíma. Þegar ég er spurður hvað ég álíti vera sumarbjór þá kemur einn bjórstíll alltaf strax upp í hugann, það er hinn belgíski saison sem einnig er kallaður sveitabjór eða farmhouse ale.  Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið.  Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af.

Ölvisholt er þessa dagana að leggja lokahönd á að koma glænýjum bjór í búðir sem er einmitt af þessari gerð. Bjórinn kalla þeir Skaði Farmhouse Ale (7.5%) og verður hann aðeins fáanlegur hér á landi út október í litlu magni.  Skaði er semsagt árstíðarbjór og verður þá líkast til að kallast haustbjór eða kannski oktoberfestbjór?  Bjórinn verður í það minnsta ekki sumarbjór þrátt fyrir stílinn en saison fæst svo sem í dag allt árið um kring svo þetta er allt í góðu lagi.  Líklega er þekktasta dæmi um stílinn hinn magnaði Saison Dupont sem fæst meira að segja hér á landi ef menn vilja láta á reyna.
Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5%  án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann.  Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.
Skaði er gerjaður með frönsku geri sem samkvæmt lýsingu bruggmeistarans gefur af sér þurran bjór með miklum esterum, kryddi og sítrusangann.  Þrátt fyrir frönsku tenginuna ætti ekki að rugla bjórnum við frönsku útgáfuna af sveitabjór, Biére de Garde sem er gjarnan mýkri, sætari og á meiri malt nótum.  Ölvisholt notar að hluta til maltaðan rúg í bjórinn sinn en það styður vel við kryddkarakterinn í stílnum og gefur notalega fyllingu í bjórinn.  Rúsínan í pylsuendanum eða botnfallið í bjórglasinu kannski eru svo hvannarfræin en bruggmeistarar Ölvisholts bættu þurrkuðum alíslenskum Ölvisholts hvannarfræum við á þroskunarstiginu til að gæða bjórinn íslenskum eiginleikum.

Bjórinn kemur í skemmtilegum umbúðum þar sem minimalisminn er allsráðandi.  Einfaldur texti sem virðist handteiknaður og svo látlaus teikning af gamla góða traktornum undir sem gæti verið Zetor eða kannski Ferguson? í glasi er hann fallegur með karamellubrúnum blæ og  léttan froðuhaus.   Í nefi er sterkur keimur þar sem saman kemur ger, ávextir og krydd.  Í munni er hann áberandi gosríkur og léttur en þó bragðmikill og með dálitlum flækjum.  Saison yfirbragðið er greinilegt, beiskja er vel merkjanleg og áberandi kryddaðir tónar skapa flotta kontrasta og svo kemur hvönnin lúmskt fram í bakgrunni.  Skemmtilegur bjór sem smellpassar við Ölvisholt brugghús sem vissulega er sveitabrugghús.  Það er mat undirritaðs að bjór þessi ætti að vera fáanlegur allt árið um kring.  Flottur bjór og vandaður sem ég hvet fólk til að prófa.  Hafa ber í huga að hann er bara fáanlegur í mjög litlu upplagi því megnið af honum er flutt út til Noregs og Bandaríkjanna.

Rodenbach Grand Cru, mest svalandi bjór veraldar?

g

Eftir tvö ár í viðartanki, ómótstæðilegur Grand Cru

Sennilega einn mesti bjórgúrú heimsins Michale Jackson sem nú er látinn, blessuð sé minning hans sagði eitt sinn að Rodenbach Grand Cru væri mest svalandi bjór veraldar hvorki meira né minna.  Stór orð en líklega ekki svo langt frá sannleikanum.  Karlinn sagði líka að þessi bjór væri einn sá besti eða jafnvel besti matarbjórinn.  Hvað sem því líður, það fer ekki milli mála að um er að ræða magnaðan bjór sem á sér fáar hliðstæður í heiminum.  Reyndar á þetta við um stílinn sjálfann, flæmskt rauðöl eins og Michale kallaði stílinn.  Belgarnir nota ekki þetta hugtak heldur kalla stílinn brúnt súröl.  Rodenbach sem staðsett er í vesturhluta Belgíu er eitt af kannski 5-6 brugghúsum í Belgíu sem brugga þennan stíl, það sem er hins vegar sérstakt við Rodenbach er að allur bjórinn þeirra er af þessari gerð, þeir eyða því öllum sínum kröftum í stílinn á meðan aðrir brugga margar aðrar tegundir ásamt brúnölinu.
Grand Cru er einn af nokkrum bjórum frá Rodenbach en sem fyrr segir eru þeir allir brúnt súröl.  Í grunninn brugga þeir tvær gerðir af bjór af mismunandi styrkleika sem svo er notaður til að skapa alla þá bjóra sem kemur frá brugghúsinu.  Bjórinn fer í gegnum þrjár gerjanir, fyrst í nokkuð hefðbundnum gertönkum við 21 gráðu en svo er bjórinn fluttur yfir í annars konar keröld þar sem gerjun númer tvö fer fram við 15 gráður.  Ástæðan fyrir þetta lága hitastig er til að lofa lactobacillus bakteríum sem notað er í gerjunina að framleiða mjólkursýru sem sýrir bjórinn.  Hjá Rodenbach er nefnilega ekki notast við einn einangraðan gerstofn heldur blöndu af gersveppum sem er haldin „sýkt“ ef svo má segja með lactobacillus.  Að loknu þessu stigi sem getur varið frá 4 – 8 vikum er bjórinn fluttur yfir í risavaxin trégímöld til þroskunar í tvö ár.  Þar fær lactobacillus áfram að leika lausum hala við að sýra bjórinn en bjórinn tekur einnig í sig einhverja eiginleika frá viðnum.  Við þessar aðstæður tapar bjórinn hins vegar gosinu og þarf því hjálp áður en hann fer á flöskur.  Í Grand Cru er notað nánast 100% af þessum „gamla“ þroskaða bjór og svo bætt í hann gosi fyrir átöppun.  Í aðra bjóra er notað mismunandi hlutfall af þessum gamla á móti ungum

GrandCruAmur

Viðargímöldin hjá Rodenbach

gosríkum og ferskum bjór.  Gamli bjórinn er því eins og „sálin“ í bjórum brugghússins.  Viðargímöldin sem notuð eru eiga sér enga hliðstæðu í heiminum, um er að ræða gríðarlega stórar „viðartunnur“ sem ná frá gólfi og upp í loft.  Hjá Rodenbac eru tæp 300 svona gímöld sem fylla eina 9 sali, ofsalega flott „setup“.
En að bjórnum. Hann er fallegur í glasi, kastaníubrúnn með fallega froðu.  Í nefi er hann ofsalega ferskur, súr keimur í bland við málm.  Vínlegur  með kirsuberjum og kannski græn epli? Í munni mætir manni líflegur sopi með heilmiklum vínkarakter, talsvert sýrður  eins og finna má í hliðum tungunnar og fremst.  Það er dálítil sæta í honum einnig, minnir ögn á brenndan sykur.  Gosríkur og spriklandi. Bjórinn minnir mig oft dálítið á ölkelduvatn fyrir þau ykkar sem hafa smakkað það á Snæfellsnesi.  Auðvitað mun betra en það er eitthvað sem framkallar þessa minningu, líklega gosið og málmkeimurinn.  Ofsalagega svalandi bjór og frábær matarbjór vegna léttleika og sýrunnar.  Fæst á Microbar eða via sérpöntun í ÁTVR.