Meira af súru – Mikkeller Yeast Series Brettanomyces Bruxellensis

Meira af súru - Mikkeller Yeast Series

Undanfarið hefur farið dálítið mikið fyrir súru bjórunum hér á síðunni.  Líklega er það vegna þess að ég er núna nýkominn heim frá Barcelona þar sem mikið var um þessa frábæru bjóra enda ofsalega ljúfir í steikjandi hitanum.
Í einni rannsóknarferð minni á einum af nokkrum bjórbúðum/pöbbum borgarinnar, La Bona Pinta rakst ég á þennan, Mikkeller Yeast Series Brettanomyces Bruxellensis.  Þetta var í raun einn af fáum bjórum þarna sem ég hafði áhuga á að smakka en það var bara helst belgískt öl og svo lokal microbrew sem í boði var þarna.  Yeast serían frá Mikkeller er ansi sniðugt fyrirbæri en líkt og hop series (þar sem mismunandi humlar eru í brennidepli) þá fjallar þessi sería um áhrif mismunandi gersvepps á bjórinn.  Í þessari seriu eru nú 6 bjórar sem allir eru bruggaðir eins, sama malt, humlar og aðstæður, eina sem er breytilegt er gersveppurinn og auðvitað gerjunarhitinn.  Þetta er einstakt tækifæri til að finna hvað gerið gerir fyrir bjórinn en sveppurinn skiptir jú gríðarlegu máli hvað varðar bragð, fyllingu, áfengismagn ofl.  Vissulega þarf maður að smakka fleiri en einn úr sömu seríu til að fá betri mynd á hvað humlar og malt er að gera en maður hefur oft ekki val.  Ég ákvað að grípa þennan sem inniheldur Brettanomyces Bruxellensis sem er einn af höfuðpaurunum í súru bjórunum, sjálfgerjuðu villibjórunum!  Maður hefur í gegnum tíðina smakkað mikið af þessum belgíska bjórstíl og getur svona nokkurn veginn gert upp við sig hvernig áhrif Brettanomyces hefur á bjórinn en í raun ekki alveg þar sem alvöru villibjór inniheldur blöndu af örverum sem eru í andrúmsloftinu þmt Brettanomyces Bruxellensis og Lambicus.  Hér er nú í fyrsta sinn mögulegt að smakka þennan gersvepp einan og sér.  Best væri að hafa þá báða hlið við hlið en La Bona Pinta átti bara þennan úr yeast seríunni því miður.  Bjórinn er annars virkilega fallegur í glasi, mattur og með fallega þétta froðu.  Í nefi er svo mikill keimur, ger og mildir ávextir á súrum nótum.  Mjög einkennandi „brett“ keimur eða „funky“ keimur eins og menn eru farnir að kalla þessa lykt.  Það sem ég tók hins vegar strax eftir er að það vantar „fúkkalyktina“ sem svo oft er í þessum bjórum.
Í munni er hann ofsalega ferskur og ljúfur.  Mildir tónar þar sem humlar og malt er alveg fjarverandi og áherslan liggur í súra þurra keimnum.  Nú er alltaf erfitt að lýsa bragði í orðum, menn verða bara að smakka.  Súrt hér er ekki sama og sítrónubragð eða álíka, meira svona eins og mjög þurrt hvítvín.  Ofsalega skemmtilegt verkefni hér á ferð og ég vona svo sannarlega að þessi sería detti hér inn á klakann, þá mun ég amk tefla saman Bruxellensis og Lambicus.

Sá græni hefur verið heldur þögull undanfarið enda verið bara á kafi í Cava í BCN.  Sá græni smakkaði hins vegar þennan karl og eins og með hina súru bjórana fannst honum hann ljúfur en mjög skrítinn og kitlandi gosið kom skemmtilega á óvart. Verður að vera ískaldur samt.

Láttu það flakka!