Jóladútl og einn ljúfur með frá Kernel

Jóladútl og einn ljúfur með frá KernelNú líður að jólum og menn og konur keppast við að leggja lokahönd á allt sem þarf að klára fyrir jólin.  Það er verið að versla gjafir og pakka inn, jólakortin eru skrifuð og smákökur og annað gúmmilaði bakað.   Þetta fylgir allt saman og er í raun það sem gerir aðdragandann að sjálfum jólunum svo notalegan og skemmtilegan.  Ekki skemmir svo fyrir að fá sér kannski eins og einn ofsalega ljúfan bjór með, svona rétt til að setja ögn meiri gleði í þetta allt saman.
Þó ég eigi sjálfur eftir að gera vel flest þá er frúin komin á fullt og í gær var sett í sörur, eitt af því fáa sem ekki má vanta yfir hátíðarnar hér á bæ.  Þetta lofaði allt saman mjög góðu hjá henni í gær og ákvað ég að láta reyna á nýjan bjór sem kom í hendur mínar úr undarlegri átt.  The Kernel Imperial Brown Stout 9,9% alla leið frá Glascow.  Já mágkona mín fór í mæðraorlof yfir hafið til Skotlands og þar komst bjóráhugi minn einhvern veginn í tal sem endaði með því að náungi að nafni Kevin, sem mágkona mín reyndar hitti aldrei sjálf, vildi endilega senda til mín tvo bjóra, þennan frá The Kernel og svo Fade To Black IPA frá Weird Beard.  Já þetta er flott, það vantar fleiri svona Kevina í heiminn það er sko víst.

En já The Kernel er heldur nýlegt lítið brugghús (2009) í London sem reyndar er orðið svo eftirsótt að það annar ekki eftirspurn. Af þeim ástæðum hafa þeir stækkað við sig held ég bara á síðasta ári.  Bjórinn þeirra er algjörlega framúrskarandi og frumlegur og spái ég því að eftir fáein ár munu vel flestir vita hvað Kernel er, ekki bara í bjórnördaheiminum.  Maður segir bara ekki nei við Kernel.  Ég hef smakkað þá nokkra frá þeim og ekki orðið fyrir vonbrigðum til þessa.
Ég ákvað að prófa bjórinn með stolnum nýbökuðum sörum. Bjórinn er svartari en kol í glasi og froðuhaus hverfur frekar fljótt.  Í nefi er mikið að gerast, hnetur, dökkt súkkulaði, ristað brennt malt.  Einnig einhver vanilla en þá samt alveg sáralítil.  Notaleg sæta með.  Í munni er bjórinn ofsalega mjúkur og flottur með mikla fyllingu.  Áfengið ein 9,9% kemur hvergi fram í bragði.  Hann er nokkuð flókinn þar sem ægir saman ristaðar hnetur, brenndar kaffibaunir, dökkt súkkulaði og ögn reykur.  Beiskja er einnig nokkur og þægileg.  Svo er einhver sæta með, vanilla?  Jább í raun flottur imperial stout sem vert er að prófa.  Hins vegar glími ég við það vandamál að þegar að stout kemur þá er ég afar vandlátur og er oftast ekkert allt of hrifinn.  Þessi karl er aðeins of súr fyrir mig í svipuðum skilningi og espresso getur stundum verið heldur súrara en beiskt en góðu hófi gengnir.  Með sörunum passar hann hins vegar mæta vel, og kemur þannig þessi sæta sem mér finnst vanta.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s