Ég hef farið nokkrum sinnum á Roudhouse eftir að hann opnaði ekki fyrir svo löngu síðan og alltaf komið ánægður út enda að mínu mati erfitt að finna betri hamborgara hér í borg. Mjólkurhristingurinn er einnig svakalega flottur og mæli ég sérstaklega með hnetusmjörs hristingnum….já ég veit, hljómar undarlega en er álíka góð upplifun og það hljómar undarlega. Frönsku kartöflurnar eru einnig alveg sér á báti, venjulega er ég lítt hrifin af slíku fæði en á Roudhous tekst mönnum að skapa eitthvað spennandi og sérstakt. Mæli með þessum fönskum.
Allt þetta ætti að vera næg ástæða til að líta þarna við annað slagið en það sakar svo ekki að hægt er að finna ágætis bjór á flöskum þarna einnig. Þeir hjá Roudhouse virðast hafa dulítinn bjóráhuga, reyndar veit ég að svo er og úrvalið sannar það. Það er alls ekki svo að skilja að úrvalið sé stórt heldur meira gæði þess sem til er.
Ég ákvað að reka nefið inn þarna í kvöld eftir að hafa keyrt út nokkur jólakort og verslað jólatré, sem ég sé núna að er allt of stórt inní stofuna, til að fá mér og fjölskyldu minni alvöru mjólkurhristing. Auðvitað breyttist þetta snarlega í frábæra máltíð með bæjarins bestur hamborgurum og allt of saðsömum hnetusmjörs hristing í eftirrétt. Þetta var bara of freystandi. Úff er enn að springa! Ég ætlaði heldur ekkert að fá mér bjór með þessu en þegar ég rak augun í fjóra Founders í hillunni var ekki aftur snúið. Já Founders virðist vera lent á klakann svo um munar. Ég hef svo sem aðeins smakkað nokkra frá þeim en var ekki í neinum vafa að um góðan bjór væri að ræða þegar ég valdi mér Dirty Bastard Scotch Ale (8,5%). Founders er nefnilega framúrskarandi amerískt „craft“ brugghús sem hóf göngu sína 1997 þegar tveir félagar og heimabruggarar ákváðu að slá til. Vinsældir Founders hafa verið gríðarlega undanfarin ár, brugghúsið var valið annað besta brugghús veraldar af Ratebeer notendum 2011 og 2012 og er nú í þriðja sæti en Ratebeer er eitt stærsta bjóráhugasamfélag veraldar. Founders bjórinn er einn af þessum gríðarlega eftirsóttu bjórum í bjórnördaveröldinni og þar hafið þið það.
Dirty Bastard er ofsalega flottur karl. Dimmur með rauðum blæ og ágætis froðuhaus. Í nefi eru ljúfir og dálítið sætir tónar, malt , þurrkaðir dökkir ávextir, toffee og ögn krydd. Í munni er hann flókinn og notalegur með meðal til mikla fyllingu. Humlar gefa dulitla beiskju en ekkert um of og svo er maltbakgrunnur áberandi með einhverjum karamellutón eða púðursykri? Bjórinn leynir alveg áfenginu en er þó dálítið vínlegur á ljúfan máta. Eftirbragð langt og gott þar sem kannski er hægt að greina smá súkkulaði?
Ofsalega flottur bjór, maður þarf að fara drífa sig aftur og taka rest.