Nýr Founders á klakanum, Dark Penance Imperial Black IPA

IMG_2655Þessi er glænýr á klakanum og fæst á betri börum borgarinnar og auðvitað via sérpöntun Vínbúðarinnar. Segja má að Dark Penance (8.9%) sé vetrarbjór þeirra Founders manna þar sem hann fæst aðeins frá október til desember og hann er hjartavermandi og hlýr eins og vetrarbjór/jólabjór á að vera. Brugghúsið er vissulega í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum sem þarf ekki að hljóma svo undarlega þar sem Founders er eitt flottasta, vinsælasta og eftirsóttasta brugghús veraldar. Ég er því ekki alveg hlutlaus. Ég hef smakkað um 12 bjóra frá þeim fram að þessu og enn ekki lent á vondum bjór sem er alveg magnað, ég eiginlega skora ég hér á lesendur að finna fyrir mig vondan Founders bjór og ég lofa verðlaunum.

Dark Penance er bleksvartur imperial black IPA. Í nefi eru ristaðir tónar, ögn píputóbak frá afa og smá sætur keimur. Í munni má finna alls konar skemmtilegheit í mjúkum sopanum sem hlaðinn er eins konar bragðregnboga. Humlarnir koma vel fram, Centennial sem eru svo vinsælir hjá Founders og kristallast kannski best í Centennial IPA frá þeim og svo er þarna Chinook. Þetta skapar þurran beiskan en jafnframt ögn blómlegan keim ásamt sitrus og furu. Það er svo haugur af malti í þessum karli, kristal malt sem gefur sætt karamellu-toffee bakbein ásamt dökku hveitimalti sem gefur litinn, ristuðu tónana og fyllinguna. Þannig má lika finna ögn súkkulaði og svo er kannski ögn vanillubragur yfir þessu öllu saman. Herlegheitin enda svo í þurrum beiskum humal. Þetta er eiginlega salgæti. Mér datt fyrst í hug að lýsa bjórnum bara með þessum fáum orðum:

„bjórinn er álíka góður og miðinn er fallegur. Fullkomnar umbúðir vægast sagt.“

.
Já menn vilja oft samanburð og mér dettur þá helst í hug Surtinn okkar frá Borg nr 23, ekki sami bjórinn, alls ekki en menn geta amk áttað sig í hvaða átt Penance er.  Enn eitt undrið frá Founders.

Logsdon Peche´n Brett – hinn fullkomni sumarkarl

 

image

Logsdon brugghús var mér ókunnugt um þar til tiltölulega nýlega þegar ég smakkaði Seizoen Bretta hjá Sæberg nokkrum Einarssyni á bjórhátíð Kex fyrir nokkru síðan en Sæberg er eins konar listrænn hönnuður og meðeigandi Logsdon brugghúss. Brugghúsið er amerískt „sveitabrugghús“ staðsett í Oregon sem einbeitir sér að belgískum bjórstílum, sér í lagi villibjór og saison (sveitabjór). Þessir gaurar eru snillingar í Brettanomyces villisveppnum og notkun hans í bjór. Ég held að Seizoen Bretta hafi verið besti saison sem ég hef smakkað svei mér þá!

Ég var að klára nokkuð stóran áfanga í mínu sérnámi á föstudaginn, eða hann er amk stór að mínu mati og því fannst mér ástæða til að fagna. Hvað er betra en að fagna í bjór…stórum bjór, eitthvað sem maður venjulega tímir ekki að kaupa? Júbb ég spjallaði við Steina á Micro en hann hefur smakkað vel flest sem til er hér á landi í bjór og spurði hann ráða, hvaða bjór myndi hann fá sér við svona tækifæri. Steini benti mér á þennan m.a. og hafandi smakkað tvo Logsdon bjóra áður þá þurfti ekki mikið til að sannfæra mig, ég meina 10% Saison með villigeri sem hefur verið aldraður á eikartunnu með ferskjum? Ekki flókið.

image Þetta er gullfallegur bjór í glasi, gulur og mattur með flotta þykka froðu. Ískaldur í sólinni þannig að glasið verður svona í móðu eins og í góðri auglýsingu. Í nefi mætir manni dásamlegur ferskjukeimur i bland við „funky“ brett. Fyrir þá sem ekki þekkja keiminn af villibjór þá er dálítið erfitt að lýsa því. Sumir tala um fúkkalykt, háaloft, mysukeim, súran keim en allt er þetta eitthvað sem gefur ekki góða mynd af því sem maður finnur. Menn verða bara að fá sér einn klassískan villibjór t.d. Cantillon Gueuze eða 3 Fonteinen Oud Gueuze sem hafa stundum fundist á Microbar, og þefa. Logsdon Peche er ekki gott dæmi um „funky“ hins vegar þar sem ferskjurnar eru afar áberandi.

Í munni er þessi drykkur álíka magnaður, gríðarlega frískandi með áberandi ferskjum en án þess að verða væminn. Sýrði, funky villigerskeimurinn kemur í veg fyrir það, kemur virkilega vel út svona súrsætur. Svo kemur eikin þarna í gegn með eins konar vanillukeim eða kókos en afar látlaust þó og loks kryddaðir tónar frá gerinu. Bjórinn er þurr á tungu og það er ágætis beiskja en þó víðs fjarri því sem maður finnur í pale ale t.d. Sopinn endar svo með dálítið súrum eftirkeim sem gerir mann klárann fyrir næsta sopa. Það sem kemur svo á óvart er að þessi bjór er 10% en það er algjörlega ómögulegt að finna það í bragði. Alveg hreint magnaður sumarbjór, hitti beint í mark