Hvenær er gestur góður?

Hvenær er gestur góður?

Mynd stolið af síðu Microbar

Það er oftast gaman að fá góða gesti en stundum er enn meira gaman þegar þeir fara aftur.  Hvað er þá góður gestur, er það einhver sem er afar sjaldgæfur og maður sér aldrei og sem kemur aldrei aftur að heimsón lokinni?  Eða er það kannski sá sem er reglulegur gestur og maður gengur að vísum? Hann kemur alltaf aftur en verður þá kannski ekki eins spennandi eða hvað?  Rómantískur gestur hlítur alltaf að vera spennandi?  Við getum amk verið sammála því að gestur sem er leiðinlegur og óspennandi er ekki góður gestur og manni er einhvern veginn sama þegar hann fer og hefur litlar áhyggjur ef hann kemur aldrei aftur.  Hér erum við komin dálítið út á heimspekilegan ís, ég veit.

En  talandi um gesti þá vill nefnilega svo til að núna er góður gestur á krana á Microbar.  Já þetta er sjaldséður gestur, gestur sem kemur aldrei aftur þegar hann er farinn og það sem meira er þá er hann hér í boði ástarinnar.
Já hann Steini á Micro gekk nefnilega í það heilaga á dögunum og bruggaði að því tilefni öl sem kallað er ástarmjöður.  Um er að ræða pale ale með rauðleitum blæ.  4,7% karl, ofsalega ljúfur og þægilegur bjór.  Dálítið þurr á tungu, notaleg beiskja og meðalgóð fylling.  Ég held að fyrir þá sem vilja smakka eitthvað ljúft, einstakt og eitthvað sem kemur líkast til aldrei aftur á krana að þá er um að gera að renna við á Microbar og láta vaða.  Ef Steini er á staðnum ættu menn jafnvel að smella á hann einum kossi í boði Amor.

Svo er það spurningin sem ég hef stundum átt erfitt með að svara.  Hvort er betra að smakka góðan bjór sem maður mun aldrei smakka aftur og komast þannig á bragðið en vitandi það að það sé svo bara allt búið.  Eða bara alveg að sleppa því að smakka en missa þá af því að hafa upplifað eitthvað einstakt?  Talandi um ástina, þá mætti heimfæra þetta þannig, reyndar vel þekkt spurning, er betra að elska og missa eða hafa aldrei elskað?
Já ég held ég hætti hér, þetta er orðið of heimspekilegt og væmið….er með tár í hvörmum þegar þetta er ritað svei mér þá.

p.s.  Pínu óheppileg merking á miðanum eða hvað?  Vonandi ekki dulið hróp á hjálp?  SOS?  😉

Bjórinn í London

Craft

Kranarnir á Craft

Ég hef nokkrum sinnum komið til London í gegnum tíðina eins og svo margir samlandar mínir og ég verð held ég að viðurkenna að ég er gjarn á í ferðum mínum að hafa augun opin fyrir góðu öli.  Hér áður var það algjör himnasæla að komast í góða bjórbúð og drösla með sér á hótelið eðalöli í lítravís enda ekkert til heima á Íslandi á þeim tímum. Ég man t.d. alltaf eftir bjórbúðinni í Pitfield þar sem ég komst yfir minn fyrsta Orval og WestvleterenKrisWines Þetta var eiginlega eina bjórbúðin í London á þeim tíma og ég þurfti að fara borgina á enda með fulla þunga poka af bjór.  Nú er þessi búð lokuð held ég en það er bara í góðu lagi þar sem aðrar hafa komið í staðinn. Í því samhengi vil ég nefna Kris Wines en þar á bæ fær maður allt sem maður þar. Líklega eru þær nokkuð fleiri búðirnar í London en ég nefni þessa bæði vegna þess að ég hef verið þarna og virkilega ánægður með úrvalið og þjónustuna en svo er það líka staðsetningin.   Já búðin er nefnilega ekki svo langt frá Brewdog í Camden og því tilvalið að slá tvær flottar feitar flugur í sama höfuðið.

En talandi um Brewdog og pöbbarölt. London er uppfull af pöbbum, sennilega er til einn pöbb fyrir hverja 5 íbúa borgarinnar og því algjör ógerningur að reyna að skoða þá alla.  Til allrar hamingju er algjör óþarfi að gera þar sem flestir þessara pöbba hafa bara þennan standard enska bjórlista sem er lítt spennandi fyrir bjórnördinn, ja fyrir mína parta í það minnsta.  Ég ætlaði ekki að lista alla pöbba hér upp sem ég hef prófað í borginni en ég verð að taka þennan hér með.Lowlander heitir staðurinn, ég skoðaði hann fyrir mörgum árum en þessi stílhreini staður sérhæfir sig dálítið í belgískum bjór og er því stórgóður fyrir þá sem eruá belgíska tímabilinu í bjórlífi sínu því kranarnir eru nokkuð veglegir þarna.  Nóg um það ég ætlaði aðallega að ræða um tvo staði hér sem standa uppúr að mínu leiti, þetta eru amk þeir staðir sem ég sæki í þegar ég er á ferðinni á þessum slóðum.

BrewDogBurgerBrewdog Camden.  Þessi staður er bara dásamlegur.  Mikið líf, mikið fjör og frábær bjór.  Fyrir þá sem elska Brewdog þá er vissulega hægt að fá ljómandi úrval af uppáhalds bjórnum sínum á krana á þessum stað.  Fyrir hina þá er það bara alveg jafn dásamlegt því gestakranarnir eru margir og alltaf eitthvað spennandi og sjaldgæft að finna.  Þeir eru einnig með ágætis úrval af flöskum to go.  Maður getur ekki treyst á bjórlistann frá því síðast því hann breytist jafn ört og flestir ættu að skipta um nærbuxur, það er þó viss kjarni sem er alltaf á krana. Það má einnig benda á að fyrir snjallsímaeigendur þá er til app sem m.a. sýnir manni fjarlægð í næsta Brewdog bar og uppfærðan bjórlista á hverjum stað.
Starfsfólkið er mjög frótt um bjórinn og ofsalega viljugt að leiðbeina ef maður er ekki alveg viss og eins og góðum bjórpöbb sæmir þá eru þeir ekkert feimnir við að lofa manni að reka tungu ofan í mismunandi kranabjór ef maður er eitthvað að spekúlera.
Það vill svo oft fylgja pöbbarölti að bumban fari að segja til sín.  Vissulega er vel hægt að fóðra dýrið með góðum kjarnmiklum bjór en stundum vill maður vera elegant og kjamsa á eitthverju með.  Hamborgarinn á staðnum er t.d. alveg stórgóður, eiginlega með þeim betri sem maður hefur smakkað og Pizzurnar eru fínar líka.  Að gefnu tilefni má samt vara sig dálítið á þessu því ekki er tryggt að sömu gæðin á mat sé að finna á örðum Brewdog stöðum og má sem dæmi nefna að borgarinn á Brewdog Stokkhólmi er alls ekkert spes.

Já, þennan stað verða menn bara að heimsækja, hann er dálítið flippaður í innréttingum, mikið að gerast, frábær bjór á krana og vinalegt starfsfólk.  Kjörið að byrja kvöldið þarna, fá sér nokkra ljúfa, innsigla það svo með besta burger í London og rölta svo á Kris Wines til að taka með nesti heim á hótel.  Ef maður nennir ekki að rölta þangað þá getur maður bara vel haldið áfram að færa öl í kvið á barnum eftir borgarann og enda svo kvöldið með að drösla growler með uppáhaldsbjór kvöldsins heim á hótel.

Craft Beer Co Clerkenwell. Þessi staður hefur þrívegis verið valinn besti bjórstaður í heimi á Ratebeer og á hann það líklega skilið.  Ég verð þó að viðurkenna að ég kann þó betur við mig á Brewdog, ég veit ekki hvað það er, það er bara önnur stemning þar.  Úrvalið er gríðarleg á þessum stað, þarna sér maður kranaröð sem hverfur bara inn í mistrið í fjarska og flöskuvalið er rosalegt.  Maður fær með sér doðrant á borðið og svo er bara að hefja lesturinn því stuttar lýsingar má finna við flesta bjórana.  Á heimasíðu þeirra tala þeir um að státa jafnvel að stærsta bjórúrvali í London sem getur vel passað.
Þegar ég leit þarna við fyrir líklega 3-4 árum síðan núna þá fannst mér aðkoman einhvern veginn ekki alveg sú besta.  Ég upplifði mig hálf óöruggan þrátt fyrir að með í för var Haukur Heiðar félagi minn og kollegi sem er ekkert pínulítill og rindlalegur.  Hann var reyndar sammála mér.  Inni var troðið af fólki og mikið að gerast á neðri hæðinni.  Efitt að komast að krönum en þó alveg geranlegt.  Á efri hæðum var meiri ró yfir, mörg herbergi eða litlir salir með borðum og stólum.  Þar var hægt að setjast niður og spjalla dálítið yfir bjórnum.  Við prófuðum ekki matinn á staðnum en hann ku vera fyrsta flokks og hvet ég fólk sem á eftir kemur að prófa.

Í heildina er þetta flottur staður, nóg af bjór, allir finna eitthvað við sitt hæfi en það er þó ekki sami fílingurinn og á Brewdog.  Ef ég mætti aðeins velja einn stað í London þá væri það Brewdog.

Það sem ég á eftir:

Það eru tveir staðir sem ég á enn eftir að skoða, í fyrsta lagi Cask Pub & Kitchen sem er systurpöbb Craft Beer co.  Staðurinn státar af mjög flottu úrvali bjórs og matur ku vera góður.  Staðsetningin er einnig flott skammt frá Buckingham palace og ég held að stemningin sé meira að mínum smekk.  Hitt er svo Kernel brugghús en þessi gaur er að gera fáránlega vandaðan bjór sem sætir gríðarlegra vinsælda í bjórheiminum öllum. Brugghúsið hefur vaxið með undraverðum hraða sl 2 ár.  Ég hef tvisvar verið á leið í brugghúsið til að skoða, fyrst voru það samferðarmenn mínir sem ekki nenntu og í seinna skiptið var ég bara á laugardegi í bænum og þá var ekki opið.  Nú sýnist mér hins vegar á heimasíðu þeirra að það sé opið á laugardögum, amk til að kaupa bjórinn beint af kúnni.