Kex hostel!

Image

Kex Hostel – Skúlagötu 28 RVK (Sjá kort hér)

Kexið er einn af þessum stöðum sem ég kíki reglulega á þegar ég er í matarhugleiðingum og vill fá góðan bjór með. Maturinn er dálítið öðruvísi en ofsalega góður og þeir eiga oft á tíðum flotta eftirsótta bjóra á krana frá stórlöxum á borð við Mikkeller, Brewdog og To Øl.  Eitthvað er svo til af flöskubjór en úrvalið svo sem ekkert ofsalegt.  Það er helst þessir flottu kranabjórar sem heilla bjórnördinn hvað mest.
Andrúmsloftið er afslappað og innréttingar dálitið svona „grunch“ ef svo má segja.  Það er mjög notalegt að finna sér skot til að setjast niður með góða bók og ljúfan bjór og slappa af.  Eða maður getur valið að setjast við barinn mitt í hamaganginum og fylgjast með.  Kexið er líka lifandi staður og oft eitthvað að gerast, tónleikar og bjórviðburðir hvers konar.  Fyrir bjórnördinn er það klárlega hin árlega bjórhátið sem ber hvað hæst.  Heil vika þar sem flottustu brugghús landsins mæta með sitt besta og lofa fólki að smakka.  Það er tilvalið að smakka það sem er væntanlegt en einnig er oft inn á milli bjór sem aldrei mun líta dagsins ljós heldur er útkoma úr einhverjum funky tilraunaverkefnum bruggmeistaranna.  Mjög skemmtilegt.

Bjórvitund starfsfólksins er dálítið ábótavant, það er dálítið pirrandi þegar maður spyr um kranabjórinn og fær að heyra að hann sé Mikkeller þegar hann í raun og veru er frá To Øl. Það eru þó nokkrir þarna sem vita sínu viti um bjórinn og vert að biðja bara um þá ef á að spá í bjórnum eitthvað frekar.  Vonandi stendur þetta þó til bóta. Annað sem truflar mig reyndar dálítið eru glösin.  Það er ekki hægt að fá almennilegt bjórglas undir eðalölið, það er bara „pint“ glas eða mjólkurglas og maður getur ekki heldur verið með vesen og beðið um rauðvínsglas eins og maður gerir stundum til að bjarga sér því þeir servera rauðvínið í mjólkurglösum.  Væri flott að hafa nokkur Mikkeller glös á fæti t.d. ja eða bara Borg glasið.   Annars bara flottur staður sem ég mæli klárlega með fyrir svanga bjórnördinn.  Svo er um að gera að fylgjast bara með hér á „Kranavaktinni“ hvað er undir hverju sinni.