Umdeildasti Þorrabjór allra tíma – Hvalur

Umdeildasti Þorrabjór allra tíma - Hvalur

Nú er Þorrinn alveg rétt handan við hornið, árstími sem þar til nýlega hefur verið fjarri því að vera í uppáhaldi hjá undirrituðum enda hefur gallsúr og úldinn(*) furðumatur ekki mikið höfðað til mín til þessa. Jafnvel brennivínið sem sumir segja að bjargi þessu öllu saman hefur ekki átt mikið uppá pallborðið að sækja. Þetta hefur þó allt breyst eftir að brugghús landsins tóku uppá því að brugga árstíðarbjór fyrir Þorrann. Nú er þetta allt í einu orðinn dálítið spennandi árstími því það er jú alltaf gaman að sjá hverju menn tefla fram hverju sinni og ekki skemmir það fyrir ef bjórinn er álíka furðulegur og ómetið sem menn borða þessa daga.

Einn af þessum bjórum í ár er einmitt þannig, furðubjór, nýr bjór frá brugghúsinu Steðja í Borgarfirði sem þeir kalla Hvalur Þorrabjór. Bjór þessi er ekki kominn á markað en hefur nú þegar vakið gríðarlega athygli bæði hér heima og úti í hinum stóra heimi. Líklega er þetta með sérstakari bjórum í veröldinni því Hvalur er eini bjórinn sem vitað er um sem bruggaður er með hvalmjöli. Þetta fer vissulega fyrir brjóstið á náttúruvinum um alla jörð, fólki sem heldur líklega að hér hafi heil hvalahjörð látið lífið fyrir bjórinn, einn hvalur á bjór! Þessar skoðanir sínar hafa menn látið í ljós bæði í fjölmiðlum erlendis sem og með grófum hótunum sem streyma nú inn um lúgur þeirra Steðjamanna. Þetta eru allt frá innantómum fúkyrðum að beinlínis lífhótunum sem m.a. felast í því að breyta eiganda Steðja, Dagbjarti Arilíussyni í bjór. Dagbjartur lætur þetta hins vegar allt sem vind um eyru þjóta og fagnar allri umfjöllun enda erfiður markaður þar sem menn þurfa að bera af til að koma sér á framfæri. Öll orka Dagbjarts beinist svo þessa dagana meira að því að koma þessum furðubjór á markað hér fyrir Þorran sem brestur á eftir 3 daga. Það er nefnilega svo að nú hefur framleiðslan og sala bjórsins verið bönnuð hér heima fyrir tilstuðlan Heilbrigðiseftirlits Vesturlands sem bendir á að allt hráefni til matargerðar verði að lúta ákv lögum. Þeir benda á Hvalur HF, þaðan sem mjölið er komið, hafi ekki leyfi til að framleiða mjöl til matvælaiðju.

Hvernig sem fer þá breytir það því ekki að hér er kominn fyrsti hvalabjór sögunnar sem smellpassar við Þorramatseðilinn. Sólúldnaðir selhreyfar, gallsúr hákarl, kafloðnir handplokkaðir hrútspungar eða hvað þetta heitir allt saman og svo ískaldur alíslenskur hvalbjór með, þetta hljómar bara allt svo rétt!
Bjórinn er 5.2% síaður og gerilsneyddur lagerbjór sem inniheldur einnig dálítið reykt malt og svo auðvitað hið próteinríka hvalmjöl frá Hval HF. Til að gera þetta enn þjóðlegra má svo finna hluta af texta úr Hávamálum á merkimiðanum, eitthvað sem sjálfur Óðinn átti að hafa lesið. Miðinn er svo að lögun eins og hvalur svo ekki fari á milli mála um hvað ræðir.

Það berjast um ýmsar tilfinningar í manni þegar maður opnar flöskuna og ekki laust við að það votti fyrir dálitlu stressi. Hér er maður með harðbannaðan drykk sem inniheldur mögulega baneitrað ósamþykkt hvalamjöl úr föllnum spendýrum í útrýmingarhættu. Verður þetta síðasti bjórinn minn? Var þetta síðasti hvalurinn á jörðinni? Verður þetta kannski einhver horbjóður eins og flest annað á borðum landsmanna yfir Þorran?
Allar þessar pælingar hverfa hins vegar um leið og bjórnum er hellt í glas og maður sér að hér er bara um bjór að ræða þó hann sé kannski ekki venjulegur. Fallegur í glasi koparrauður að lit með ágætis froðuhaus. Í nefi er lítið að gerast en það er þó dálítill reykkeimur sem kemur vel út. Svo veit ég í raun ekkert hvernig hvalmjöl ilmar en það er þarna einhver keimur sem ég hef ekki fundið áður.
Í munni er hann bragðmikill og kitlandi. Þægilega humlaður, ögn reyktur og svo einhver kornkeimur og sæta sem kemur fram í bakgrunni, eitthvað sem ég hef aldrei fundið áður. Minnir í raun ekkert á hvalkjöt enda kannski ekki við því að búast af mjöli. Skemmtilegur keimur samt og passar nokkuð vel við rest og gefur ljúft og langt eftirbragð.

Allt í allt vandaður og skemmtilegur bjór sem ég held að muni sóma sér mjög vel sem matarbjór ef hann yfir höfuð kemst á markað. Væri mjög spennandi að smakka hann með steiktu hvalkjöti.  Ég held þó að það sem er skemmtilegast við bjórinn er að hann er framandi og unnin úr einhverju sem maður á ekki að venjast, hann gengur því sem Þorrabjór þar sem allt er leyfilegt en fyrir mína parta myndi ég líkast til ekki vera of spenntur ef um heilsársbjór væri að ræða. Ég get ekki varist því að mér finnst hvalmjöl ekki hjóma sérlega girnilega en kommon….það er jú Þorri! Hvet alla til að prófa þennan, sannir Íslendingar drekka hvalabjór eða hvað?
Vonum bara að þessi bjór komi á markað, ég veit að Dagbjartur er enn ekki búinn að gefa upp alla von, sjáum hvað setur næstu daga.

(*) Viðbót – ég hef áður lent í þessu, gleymi alltaf að passa mig en þegar ég rita um Þorramatinn á ég það til að hreyfa við viðkvæmum taugum fólks sem virkilega kann að meta þennan mat.  Það er bara gott og blessað, gaman að halda í hefðirnar en ég vil þó árétta að hér eru það mínar skoðanir sem koma hér fram.  Þegar ég tala um úldinn og skemmdan mat þá er það skírskotun í það þegar við Íslendingar bjuggum ekki yfir kælitækni nútímans og brugðum á það ráð að leggja mat í súr til að reyna að auka geymsluþol (forða honum frá örverum). Hvað er það annað en að skemma mat? Það er klárlega skilgreiningaratriði hvenær eitthvað er skemmt, sumir segja t.d. sykur skemma kaffidrykkinn, of sterk krydd skemmi ákv rétt, of mikil sósa, kolröng sósa og svona mætti lengi telja.  Mjólk er t.d. ekki beint skemmd ef hún hefur súrnað, hún er það hins vegar að mínu mati.  Hvenær er svo mygluostur skemmdur….það er smekksatriði.  Alla vega, í mínum augum er mikið af þessum Þorramat skemmt.  Úldið er svo annað mál, tek bara svona til orða.  En þá er það hér með komið fram!

Steðji Reyktur Bjór

Steðji Reyktur Bjór

Steðji er nýjasta brugghúsið á Íslandi.  Þetta er dálítið skrítið lítið brugghús í Borgarfirðinum.  Þeir byrjuðu að gera frekar einfaldan lager með líklega ljótasta merkimiða sem sést hefur.  Þeir hafa reyndar lagað aðeins til merkimiðann og er hann þolanlegur núna.  Þeir hafa svo gert jólabjór, páskabjór, dökkan bjór, sítrusbjór og svo þennan reykta bjór.  Reyndar sá ég í hillum ÁTVR áðan jarðaberjabjór en mig langaði bara ekki að prófa hann í dag.  Greip þennan þar sem reykbjórar eru dálítið skemmtilegur bjórstíll og hafa ekki sést úr íslensku brugghúsi til þessa.

Sá harði myndi segja: Bjór þessi er dökkbrúnn eða dimmrauður í glasi, eins og rauðvín með froðu. Froðan hverfur frekar fljótt og er dálítið sápuleg að þéttleika.  Froðan hangir þó í glasinu -lacing!! og fær bjórinn smá plús fyrir það. Í nefi er reyktur keimur, alls ekki áberandi en vel greinanlegur.  minnir á mjög mild viðarkol.  Fyrir bjórnördið mætti þetta vera þróttmeiri lykt en samt flott byrjun.  Í munni er hann mildur, gosríkur með látlausa beiskju.  Reykurinn er áberandi en langt frá því að vera allsráðandi.  Þetta er meira eitthvað sem liggur í bakgrunni.  Örlítill reykur í eftirbragði.   Fyrir hinn harða bjórnörd myndi þessi bjór líkast til ekki fara hátt í verðlaunastiganum.  Hann fær þó stig fyrir effort, þetta er amk ekki sama lagersullið sem menn virðast alltaf detta í.  Ég veit þó að menn vilja mun meiri reyk, reykjarkóf alveg hreint.

Fyrir þann græna held ég að þetta sé varasamur bjór. Sá græni myndi líklega strax snúa við við merkimiðann „Reyktur bjór“ er allt of „hættulegt“.  En er maður leggur í smá ævintýramennsku, lifir aðeins á brúninni og prófar þá kannski kemst maður að því að þessi reykur er mjög látlaus og ef maður spáir aðeins í það þá er þetta virkilega skemmtilegur matarbjór.  T.d. með grillmeti hverskonar.  Smá BBQ fílingur passar vissulega vel við á pallinum eða hvað?  Já sá græni vill meina að það sé vert að prófa, bara til að hafa prófað en er hræddur um að margur grænjaxlinn muni ekki vera of kátur.