Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Mér er það í raun ekki sönn ánægja að tilkynna að nú er hægt að fá þessa mögnuðu perlu á krana á Microbar.  Ástæðan er bara sú að um er að ræða imperial IPA sem er hættulega nálægt því að vera fáránlega góður og ég kemst ekki í kvöld til að klára hann.  Ég veit eða grunar að hann klárist í kvöld á Mivrubar. Ég er að tala um  Dangerously Close To Stubit frá hinu magnaða bruggfyrirbæri To Øl.  Bjórinn er ein 9.3% og á maður ekki nokkurn möguleika á að finna það í bragði svo mikil eru gæðin í bjórnum.  Fáránlega fallegur í glasi, mattur og fínn með hættulega fallega froðu.  Í nefi er ofsalega ljúfur keimur, haugur af blómum og ávöxtum sem merki um að bjórinn er hér serveraður algjörlega á hárréttum tíma, ferskari gerist þetta varla miðað við landafræðina.  Í bragði njóta humlarnir sín einnig, beiskjan er ofsalega mjúk og fín en þó alveg til staðar já já, bara ekki hvöss ef svo má orða það.  Sætur undirtónn sem heldur vel á móti, mikill þéttleiki og ofsalega ljúfur sætbeiskur eftirkeimur með ávaxtablæ.   Ég held að það sé orðið langt síðan ég smakkaði svona flottan DIPA/Imperial IPA.
Já ég er ofsalega sár yfir að komast ekki í þetta í kvöld en nýt þess þá bara í gengum ykkur.

Græni karlinn: Ég er næstum orðlaus, var hálf hræddur í fyrstu en stemningin og hamingjan á Microbar gerði þetta bara svo magnað.  Lyktin er ljúf og fín með sætum ávöxtum.  Það er vissulega mikið bragð af þessum bjór og hann fyllir vel í munn.  Beiskjan er til staðar en er einhvern veginn ekki svo átakanleg eins og búist var við.  Þetta er klárlega bjór fyrir fólk sem vill fá almennilegt bragð.  Það má amk smakka.

Húsbjór á Kaffibarnum – bjórmánuður!

Húsbjór!!! Hústónlist og eðalöl á Kaffibarnum

Frábærar fréttir af Kaffibarnum fyrir bjórnerði nær og fjær.  Kaffibarinn hefur lengi verið eini almennilegi staðurinn hér í borg að mati undirritaðs þar sem hægt er að fá almennilega tónlist til að dilla sér við framundir morgun.  Það hefur einnig verið hægt að fá einn og einn eðalbjórinn til að halda sér köldum. Nú ætla þeir þó að bæta um betur og hafa „bjórmánuð“ bara fyrir okkur nerðina, og svo auðvitað alla hina líka! Húsbjór mætti kalla þetta uppátæki, house music and beer, frábær blanda! Alla vega, bjórlistinn er ekki alveg klár en hann mun birtast á fésbókarsíðu Kaffibarsins á næstunni en meðal gesta á barnum má nefna ofurmenni á borð við Orval, Chimay, Duvel, fullt af Mikkeller og Brewdog ásamt fleiru.  Það verður gaman að fylgjast með þessu hjá þeim.  Frábært uppátæki.  Undirritaður verður amk með annan fótinn á Kaffibarnum næsta mánuðinn, til í bjórspjall og létta sveiflu.