Borgar sig að gleyma Borg?

Borgar sig að gleyma Borg?

Allt frá upphafi hefur Borg brugghús verið ötult og lifandi tilraunabrugghús sem hefur fært okkur hvern bjórinn á fætur öðrum.  Þeir komu t.d. með fyrsta íslenska IPAinn, fyrsta Quadrupelinn, fyrsta Barley Wine bjórinn og svona mætti telja talsvert lengi.    Þegar Borgarfjölskyldan er skoðuð má sjá að hún inniheldur stórt hlutfall „ofurbjóra“ ef svo má segja.  Við erum þá að tala um öl sem við Íslendingar eigum kannski ekki að venjast öllu jafna, stóra karla þar sem áfengisprósentan og flækjustig nær himinháum hæðum, bjór eins og Surt og Garún imperial stout, tunnuþroskuð monster á borð við Giljagaur 14.1 og Surt 8.1, barley wine eins og Giljagaur, belgíska tripelinn Ástrík og Úlf Úlf double IPA sem dæmi.  Allt eru þetta dæmi um framúrskarandi eðalöl þar sem öllu er til tjaldað og bæði vilji og geta brugggúrúanna Valla og Stulla, til að lyfta ölmenningu okkar á næsta plan, leynir sér ekki.

Fullkomið eða hvað?  Nánast, það er hins vegar einn galli á þessu öllu saman og kannski er það samt ekki galli, kannski er þetta bara eitthvað sem gerir Borgarbjórinn enn meira spennandi.  Það er nefnilega svo að bjórinn þeirra kemur að mínu mati, og ég veit að ég er ekki einn um þá skoðun, ekki alveg tilbúinn á markað.  Það er þó ekki í þeim skilningi að bjórinn sé ekki góður, alls ekki það er hins vegar oft svo að hann á eftir að verða svo miklu mun betri með tímanum, hann er bara ekki alvega tilbúinn fyrir bjórnördinn.
Þetta segi ég og skrifa nú þar sem ég sit með ársgamlan Júdas í glasi og er að reita af mér stélfjaðrirnar yfir því að hafa ekki tekið fleiri flöskur frá til geymslu síðustu páska.  Já ég skrifa þetta í raun  öðrum víti til varnaðar.  Sömu tilfinningu fékk ég núna um jólin þegar næstsíðasti Giljagaur 14 (ársgamall) rann niður í belg.  Þessir karlar eru orðnir svo miklu skemmtilegri og betri með aldrinum.  Það er nefnilega þannig að sumar tegundir bjórs má og nánast á að geyma og er þá tímaramminn í raun óljós.  1 ár eða 20 ár, hver veit, tíminn leiðir bara í ljós á hvaða tímapunkti bjórinn hættir að vera góður og byrjar að dala og það besta við þetta allt saman er að það eru aðeins þínir eigin bragðlaukar sem ráða för.  Bjórinn verður einhvern veginn flóknari, mýkri og í meira jafnvægi.  Einfaldlega meira þroskaður!

Ég hef haft það fyrir reglu nú í seinni tíð að taka alltaf dálítið ríflegt af stóru bjórunum frá Borg svo ég geti notið þeirra ári síðar, enn sem komið er hefur mér ekki tekist að geyma bjórinn í tvö ár en Giljagaur 14 verður líklega sá fyrsti sem nær þeim stalli næstu jól.  En borgar sig að geyma alla Borgarbjóra?  Alls ekki!  Ég hef heyrt í mönnum sem eru að láta sig hlakka til að smakka árs gamlan Úlf t.d. en Úlfur er dæmi um bjór sem alls ekki hentar til geymslu.  Það er vissulega hægt að geyma hann því hann skemmist ekki, hins vegar tapar hann sérkennum sínum með tímanum þ.e.a.s humalkarakternum sem einkennir IPA stílinn.  Humlar innihalda rokgjarnar og viðkvæmar sýrur sem gefa bragðið og lyktina sem gerir stílinn svo dásamlegann.  Með tímanum hins vegar rjúka þessar sýrur úr bjórnum og hann tapar ferskleika sínum.   Brio er einnig bjór sem alls ekki á að geyma.  Þetta er þýskur pilsner sem í raun byrjar að skemmast um leið og flaskan er opnuð.  Drekkið hann hratt og örugglega.  Það mætti kannski segja að sterkari bjórarnir séu hentugir til geymslu  á meðan þessir léttu og mildu eru meira svona til að þamba í stórum stíl.  Það eru svo líka þarna millistig eins og t.d. Myrkvi.  Spurning bara þá að prófa að geyma eða einfaldlega varpa spurningum á undirritaðan eða meistarana sjálfa hjá Borg.

Svona til að taka þetta saman þá hefur, þökk sé Borg, skapast hér skemmtileg hefð að gera tilraunir með að geyma bjórinn þeirra og sjá hvernig hann vex og dafnar.  Menn þurfa bara að muna að kaupa nóg til að eiga lager fyrir eitt ár, tvö ár þrjúr ár og svo framvegis.  Passa að geyma ekki hvaða bjór sem er, mildu litlu karlarnir eru ekki spennandi til geymslu t.d.  Notið þá til að drekka á meðan hinir þroskast.

Jóladútl og einn ljúfur með frá Kernel

Jóladútl og einn ljúfur með frá KernelNú líður að jólum og menn og konur keppast við að leggja lokahönd á allt sem þarf að klára fyrir jólin.  Það er verið að versla gjafir og pakka inn, jólakortin eru skrifuð og smákökur og annað gúmmilaði bakað.   Þetta fylgir allt saman og er í raun það sem gerir aðdragandann að sjálfum jólunum svo notalegan og skemmtilegan.  Ekki skemmir svo fyrir að fá sér kannski eins og einn ofsalega ljúfan bjór með, svona rétt til að setja ögn meiri gleði í þetta allt saman.
Þó ég eigi sjálfur eftir að gera vel flest þá er frúin komin á fullt og í gær var sett í sörur, eitt af því fáa sem ekki má vanta yfir hátíðarnar hér á bæ.  Þetta lofaði allt saman mjög góðu hjá henni í gær og ákvað ég að láta reyna á nýjan bjór sem kom í hendur mínar úr undarlegri átt.  The Kernel Imperial Brown Stout 9,9% alla leið frá Glascow.  Já mágkona mín fór í mæðraorlof yfir hafið til Skotlands og þar komst bjóráhugi minn einhvern veginn í tal sem endaði með því að náungi að nafni Kevin, sem mágkona mín reyndar hitti aldrei sjálf, vildi endilega senda til mín tvo bjóra, þennan frá The Kernel og svo Fade To Black IPA frá Weird Beard.  Já þetta er flott, það vantar fleiri svona Kevina í heiminn það er sko víst.

En já The Kernel er heldur nýlegt lítið brugghús (2009) í London sem reyndar er orðið svo eftirsótt að það annar ekki eftirspurn. Af þeim ástæðum hafa þeir stækkað við sig held ég bara á síðasta ári.  Bjórinn þeirra er algjörlega framúrskarandi og frumlegur og spái ég því að eftir fáein ár munu vel flestir vita hvað Kernel er, ekki bara í bjórnördaheiminum.  Maður segir bara ekki nei við Kernel.  Ég hef smakkað þá nokkra frá þeim og ekki orðið fyrir vonbrigðum til þessa.
Ég ákvað að prófa bjórinn með stolnum nýbökuðum sörum. Bjórinn er svartari en kol í glasi og froðuhaus hverfur frekar fljótt.  Í nefi er mikið að gerast, hnetur, dökkt súkkulaði, ristað brennt malt.  Einnig einhver vanilla en þá samt alveg sáralítil.  Notaleg sæta með.  Í munni er bjórinn ofsalega mjúkur og flottur með mikla fyllingu.  Áfengið ein 9,9% kemur hvergi fram í bragði.  Hann er nokkuð flókinn þar sem ægir saman ristaðar hnetur, brenndar kaffibaunir, dökkt súkkulaði og ögn reykur.  Beiskja er einnig nokkur og þægileg.  Svo er einhver sæta með, vanilla?  Jább í raun flottur imperial stout sem vert er að prófa.  Hins vegar glími ég við það vandamál að þegar að stout kemur þá er ég afar vandlátur og er oftast ekkert allt of hrifinn.  Þessi karl er aðeins of súr fyrir mig í svipuðum skilningi og espresso getur stundum verið heldur súrara en beiskt en góðu hófi gengnir.  Með sörunum passar hann hins vegar mæta vel, og kemur þannig þessi sæta sem mér finnst vanta.