
Nýr pilsner frá Mikkeller, Citrus Dream
Ég fór á Kexið í gærdag til að næla mér í Mikkeller 19 áður en hann kláraðist. Mér líkaði svo vel við bjórinn að ég dró frúnna sem er mikil bjórkona aftur á Kexið um kvöldið til að smakka. Því miður var 19 búinn á flotta krananum en í staðinn kominn undir Mikkeller Citrus Dream sem er alveg glænýr bjór frá Mikkeller. 4.6% pilsner sem bruggaður er með Citra humlinum og svo appelsínu og sítrónuberki. Þeir nota enn fremur maís og hafra í bjórinn. Flottir! Þessi bjór er fallegur í glasi, tær og glæsilegur eins og sönnum pilsner sæmir. Í nefi er ávaxtasprenging þar sem mangó er í aðalhlutverki og svo snefill af appelsínu og örlítið ristað malt. Í munni er svo allt annað uppá tengingnum. Maður finnur vissulega að þetta er ekki öl, það er þetta pilsner/lager yfirbragð sem þið áttið ykkur á þegar þið smakkið sjálf. Það er einnig nokkur ávaxtakeimur sem þó ekki er eins áberandi og í nefi. Hann er dálítið rammur, sítrusbörkur og furunálar. Nær þó ekkert í áttina að IPA í beiskjunni enda alls ekki tilgangurinn. Bjór þessi er algjörlega málið núna, sérstaklega í dag í svona sól og hita. Frábær sumarbjór sem vert er að eltast við en það er um að gera að vera fljótur til því kauði klárast líklega fljótt eins og Mikkeller 19.
Sá græni er voðalega ánægður. Hér er kominn bjór sem bragð er af án þess að hann sé of mikill. Rosalega flott ávaxtalykt og sæta. Í munni er þetta svo bara eins og lagerinn nema bara með meiri snerpu og ávöxtum. Ég tel að allir geti notið þessa bjórs án vandræða.