Skaði er skeður í Ölvisholti?

Skaði er skeður í Ölvisholti

Árstíðarbjórar eru orðnir heldur betur inn í dag hér á landi.  Litlu brugghúsin keppast við að brugga sérstaka bjóra fyrir sérstök tækifæri eða árstíðir.  Jólabjórinn og páskabjórinn eru t.d. nú orðið stór hluti af þessum hátíðum í hjörtu margra og í seinni tíð hafa þorrabjórar, oktoberfestbjórar og jafnvel sumarbjórar bætst í hópinn.   Árstíðabjór, eða eins og þeir segja vestanhafs, season beer er einfaldlega bjór sem bruggaður er fyrir ákveðin tíma árs og er því til í litlu magni og í stuttan tíma.  Fyrir vikið verður bjórinn dálítið meira spes og spennandi.  Mörg brugghús gera alltaf fasta árstíðarbjóra sem maður getur treyst á frá ári til árs  á meðan önnur koma með nýjar útgáfur ár hvert.  Þetta uppátæki færir bjórnum enn meiri sérstöðu því þegar hann er búinn þá kemur hann jú aldrei aftur.

Ölvisholt brugghús hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og hafa þeir í gegnum tíðina teflt fram framúrskarandi árstíðarbjórum sem aldrei eru eins á milli ára. Má þar nefna hina mögnuðu Jólabjóra sem oftast liggja í efstu sætum í smakkprófum, páskabjóra og nú síðast sumarbjórinn Röðul sem er sérlega góður IPA.  Sumarbjórinn hefur verið dálítið óskilgreint hugtak hér á landi en menn eru hér frekar nýlega farnir að brugga bjór sem þeir tengja við þennan árstíma. Þegar ég er spurður hvað ég álíti vera sumarbjór þá kemur einn bjórstíll alltaf strax upp í hugann, það er hinn belgíski saison sem einnig er kallaður sveitabjór eða farmhouse ale.  Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið.  Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af.

Ölvisholt er þessa dagana að leggja lokahönd á að koma glænýjum bjór í búðir sem er einmitt af þessari gerð. Bjórinn kalla þeir Skaði Farmhouse Ale (7.5%) og verður hann aðeins fáanlegur hér á landi út október í litlu magni.  Skaði er semsagt árstíðarbjór og verður þá líkast til að kallast haustbjór eða kannski oktoberfestbjór?  Bjórinn verður í það minnsta ekki sumarbjór þrátt fyrir stílinn en saison fæst svo sem í dag allt árið um kring svo þetta er allt í góðu lagi.  Líklega er þekktasta dæmi um stílinn hinn magnaði Saison Dupont sem fæst meira að segja hér á landi ef menn vilja láta á reyna.
Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5%  án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann.  Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.
Skaði er gerjaður með frönsku geri sem samkvæmt lýsingu bruggmeistarans gefur af sér þurran bjór með miklum esterum, kryddi og sítrusangann.  Þrátt fyrir frönsku tenginuna ætti ekki að rugla bjórnum við frönsku útgáfuna af sveitabjór, Biére de Garde sem er gjarnan mýkri, sætari og á meiri malt nótum.  Ölvisholt notar að hluta til maltaðan rúg í bjórinn sinn en það styður vel við kryddkarakterinn í stílnum og gefur notalega fyllingu í bjórinn.  Rúsínan í pylsuendanum eða botnfallið í bjórglasinu kannski eru svo hvannarfræin en bruggmeistarar Ölvisholts bættu þurrkuðum alíslenskum Ölvisholts hvannarfræum við á þroskunarstiginu til að gæða bjórinn íslenskum eiginleikum.

Bjórinn kemur í skemmtilegum umbúðum þar sem minimalisminn er allsráðandi.  Einfaldur texti sem virðist handteiknaður og svo látlaus teikning af gamla góða traktornum undir sem gæti verið Zetor eða kannski Ferguson? í glasi er hann fallegur með karamellubrúnum blæ og  léttan froðuhaus.   Í nefi er sterkur keimur þar sem saman kemur ger, ávextir og krydd.  Í munni er hann áberandi gosríkur og léttur en þó bragðmikill og með dálitlum flækjum.  Saison yfirbragðið er greinilegt, beiskja er vel merkjanleg og áberandi kryddaðir tónar skapa flotta kontrasta og svo kemur hvönnin lúmskt fram í bakgrunni.  Skemmtilegur bjór sem smellpassar við Ölvisholt brugghús sem vissulega er sveitabrugghús.  Það er mat undirritaðs að bjór þessi ætti að vera fáanlegur allt árið um kring.  Flottur bjór og vandaður sem ég hvet fólk til að prófa.  Hafa ber í huga að hann er bara fáanlegur í mjög litlu upplagi því megnið af honum er flutt út til Noregs og Bandaríkjanna.

Teresa frá Borg, girnileg á Oktoberfest

photo (3)Nú fer senn að líða Oktoberfest, hinni árlegu risabjórhátíð í Munchen þar sem íturvaxnar barmmiklar bjórþernur færa í þyrstann líðinn bjór í lítravís og blindfullir karlar í leðursmekkbuxum syngja og tralla eins og enginn væri morgundagurinn.  Bjórhátíð þessi hefur smitað út frá sér í gegnum tíðina og má nú finna litlar útgáfur af oktoberfest víða um veröld.  Hér á landi tíðkast að halda svona bjórveislur í fyrirtækjum, á krám og nú það nýjasta, í tjaldi á Háskólalóðinni í kringum mánaðarmótin september/oktober.  Stóru brugghúsin í Þýskalandi, í kringum Munchen brugga ár hvert sérstakan oktoberfestbjór sem drekka á á þessari gríðarlegu bjórhátíð. Hér á landi eru menn einnig farnir að fikta dálítið við að brugga bjór að þessu tilefni.  Sumir halda í hefðina og brugga bjórinn eftir þýskum hefðum, svo kallaðan Märzen bjór sem bruggaður var í mars og svo látinn gerjast í rólegheitunum yfir sumarmánuðina þannig að hann væri tilbúinn til drykkju í lok september þegar Oktoberfest geisar sem hæst.  Upphaflegi Märzen bjórinn var dökkur lagerbjór en í kringum 1870 náði önnur tegund vinsældum og tók við af gamla dökka bjórnum.  Sá bjór var sterkari bjór af gerðinni Vienna lager eða amber-rauður lager sem bruggaður var í mars líkt og hinn upphaflegi Märzen.  Í dag er dálítið mismunandi hvernig menn brugga þennan bjór, Kanarnir halda sig enn við hina rauðu eða amber bjóra á meðan Evrópa er meira í gylltu tæru bjórunum.
Það eru þó alls ekki einhver fastskrifuð lög um hvernig oktoberfestbjór á að vera, menn hafa jú alveg frjálsar hendur í þeim efnum en oftast má finna einhverja tengingu við hátíðina.  Árið 2011 kom Borg með sinn fyrsta oktoberfestbjór sem hét einfaldlega Október (5), ekki minn uppáhalds Borgarbjór samt en fín pæling engu að síður.  Í fyrra kom svo annar oktoberfestbjór frá þeim, sá hét Lúðvík í höfuðið á Lúðvík I. sem ríktí í Bæjaralandi í upphafi 19. aldar.  Bjórinn var af gerðinni doppelbock sem er sterkur þýskur bjórstíll.  Nafngiftin var bæði virðuleg og afar viðeigandi því þegar Lúðvík, þá krónprins af Bæjaralandi, giftist fyrstu konu sinni Theresu þann 12. október 1810 sló hann til gríðar mikillar veislu í Munchen svo þegnar hans gætu glaðst með honum. Þessi hátíð festist svo í sessi sem Oktoberfest æ síðan.  Í ár er komið að nýjum oktoberfestbjór frá Borg, sá er nr 20 í röðinni. Um að ræða dálítið óvenjulegan stíl, India Red Lager, stíll sem líklega er ekki formlega til en hefur þó verið bruggaður í hinni víðri veröld áður.  Segja má að stíllinn sé blanda af India Pale Ale og Red Lager eða Vienna Amber/Red.  Menn eru hér með tenginguna við vinsæla Märzen bjórinn (Amber/Red Lager) en hafa svo poppað hann dálítið upp með humlum, frábær hugmynd! Önnur tenging er svo nafnið en svo virðist sem þeir hjá Borg hafi ákveðið að jafna kynjahlutfallið dálítið í bjórfjölskyldu sinni og eru farnir að nefna bjórinn sinn kvenkyns nöfnum.  Fyrst var það Garún (19) sem reyndar er ekki enn kominn í sölu (fer ekki í sölu hérlendis) og svo þessi, Teresa.  Til eru nokkrar merkar Teresur í sögunni sem og Lúðvíkar ef út í það er farið. María Teresa t.d. sem fædd var í

teresa

Teresa var flott og efnileg eins og bjórinn frá Borg

Vín og ríkti yfir Austurríki, Króatíu, Ungverjalandi og Bæheimi og víðar á 18. öld og önnur Maria Theresa, Spánardrottning sem var að dandalast með Lúðvík 14. Frakklandskonungi um miðja 18. öld.  Hér væri auðvelt að rugla saman parinu frá Borg og þessum tveim.  Umrædd Teresa sem hét reyndar Therese Charlotte Luise, full langt fyrir bjórmiða, var hins vegar uppi dálítið seinna eða í upphafi 19. aldar og sem fyrr segir giftist hún Lúðvík 1. á fyrstu Oktoberfest sögunnar.  Gaman að þessu. Spurningin er svo hvað oktoberfestbjórinn frá Borg mun heita að ári? Að nóg er að taka því þau skötuhjú áttu ein 9 börn , Maximilian , Mathilde Caroline, Otto, Theodelinde, Luitpold, Adelgunde, Hildegard , Alexandra og Adalbert.
Nóg um heimssöguna, bloggið á vissulega að fjalla um bjórinn. Teresa er ofsalega flott í glasi, koparlituð með fallega þétta froðu.  Í nefi má finna ljúfa tóna og sæta sem líklega kemur frá humlunum frekar en maltinu, dulítið af ávöxtum og svo korn.  Virkilega ljúffengt.  Í munni er hann bragðmikill og skemmtilega flókinn miðað við lager.  Fylling er góð og nokkuð fín beiskja án þess þó að ná IPA hæðum.  Það er nokkur sæta á móti frá maltinu og svo einhver ávaxtakeimur og sítrus sem stafar líkast til af humlunum.  Kemur virkilega vel út.  Eftirbragð er virkilega hugljúft með mjúkum „floral“ humalkeim.   Virkilega flottur bjór frá Borg og klárlega besti oktoberbjórinn þeirra hingað til.  Hann hefur allt sem þarf, frábæra lykt, fína beiskju og svo sætan „frúttaðan“ undirtón.  Ef ég væri enn að gefa einkunnir í krúsum fengi þessi 4 krúsir sem lager.