Stone Matt’s Burning Rosids Imperial Cherrywood smoked Saison

IMG_1821

Saison virðist vera dálítið inn hjá mér síðastliðið ár enda um gríðarlega góðan bjórstíl að ræða.  Það er svo sem ekkert undarlegt við það að maður er ekki að drekka saison alla daga hér á klakanum því úrvalið er nánast núll.  Saison Dupont hefur reyndar verið til hérna lengi og þar er sko aldeilis ekkert slor á ferð.  Svo kom jú hinn íslenski Skaði sælla minninga í fyrra og sló heldur betur í gegn meðal bjórnörda og segja má að Ship O Hoj IPA sá nýjasti frá Ölvisholti sé eins konar humlaður saison einnig.
Fyrr á árinu fór ég með fjölskylduna til Orlando og greip tækifærið til að smakka amerísku túlkun þessa belgíska bjórstíls enda fáir bjórstílar eins viðeigandi í yfir 30 stiga hita við sundlaugabakkann.  Þetta eru auðdrekkanlegir bjórar, mildir en þó flóknir og margslungnir.  Kryddaðir tónar og svo ferskleiki í formi súraldins af ýmsum toga.  Ég datt niður á nokkra góða í þessari ferð og var Great Devide Culette (7.3%) sérlega eftirminnilegur. Svo rak ég augun í þennan frá Stone Brewing,  Matt’s Burning Rosids.  Það var aðallega tvent sem kveikti áhuga minn, brugghúsið Stone sem gerir ekkert nema góðan bjór og því eru gæðin tryggð og svo var það imperial saison en slíkt hafði ég aldrei smakkað.  Það að hann er bruggaður með malti reyktu yfir kirsuberjavið var bara auka bónust.

Sagan á bak við þennan bjór er dálítið hjartavermandi en þeir hjá Stone tileinka bjórinn fyrrum bruggara hjá brugghúsinu Matt Courtright sem lést nýlega langt fyrir aldur fram.  Uppskriftin var eitthvað sem Matt hafði verið að setja saman skömmu áður en hann lést.  Ef maður fer inn á síðuna þeirra má lesa heilmikið um þennan Matt sem virðist hafa verið afar næs gaur.

Þá að bjórnum, ekki það að menn komist svo sem yfir hann hér heima en við Íslendingar förum jú mikið til Flórida og þar ættu menn klárlega að reyna að hafa uppá honum ef kostur gefst.  Bjórinn er glæsilegur í glasi með fallega ljúfa froðu, í nefi er mikið krydd og svo þegar líður á byrja kirsuberin að gera vart við sig.  Í munni er mikill skrokkur og ofsalega mikið bragð með kryddum og þónokkurri sætu.  Reykkeimur er frekar látlaus og í raun þarf maður að vita af honum til að merkja.  Hefði mátt vera öööörlítið meira áberandi.  Kirsuber eru hins vegar mjög áberandi og gera þetta klassíska saison bragð enn skemmtilegra en án þess þó að stela senunni….bjórinn heldur áfram velli sem saison.
Frábær saison sem menn verða að prófa.

Það er svo ekki hægt að fjalla um saison án þess að nefna nýjustu viðbótina á klakann, Logsdon bjórinn sem nú fæst t.d. á Microbar og í sérpöntun ÁTVR.  Logsdon er líklega þeir allra flínkustu í bruggun saison bjóra og ég hvet fólk til að ná sér í nokkrar flöskur.  Sumir hafa kannski þegar smakkað eitthvað frá þeim á bjórhátíð Kexins fyrr á árinu en þar voru nokkrar svakalega flottar perlur frá þeim.

Borg full of shit!

IMG_1812

Borg nr 26 Fenrir Taðreyktur IPA er merkilegur andskoti, líklega sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum bara. Já alltaf gaman að reka tungu ofan í  svona tilraunaverkefni, reyndar hafði ég smakkað taðreyktan bjór hjá Borg fyrir einhverjum 2 árum eða svo, hann var skemmtilegur og á þeim tima voru Borgarar að velta fyrir sér hvort markaðurinn myndi ráða við svona furðuverk.  Ég er Borgurum afar feginn að hafa nú látið vaða því ég átti nefnilega  mjög skemmtilegt móment með þessum bjór á pallinum í gær þar sem sólin gægðist fram á milli skýjanna í nokkrar sekúndur en þó nægilega lengi til að fullkomna mómentið.
Það var nefnilega þannig að þegar ég opnaði flöskuna kom bara öll gamla góða sveitin á móti mér. Þvílíkur hrossaskítur, ég var bara allt í einu kominn aftur í Kjósina fyrir aftan haugsuguna á bak við fjósið. Já ég er þetta gamall, ég náði nefnilega þessum gullárum þar sem ungir menn voru sendir í sveit á sumrin í kúasmölun, heyskap og annað púl. til að verða að mönnum, en nú eru víst breyttir tímar. En en aftur að  haugsugunni 🙂 þetta skemmtilega atvik var mér eignlega nánast gleymt sem er eiginlega ótrúlegt, en kannski er þetta einmitt atvik sem menn vilja ekki tala mikið um?  Hvað með það, það var heitur sumardagur og við vorum þarna tveir félagarnir, líklega 12 eða 13 ára gamlir, nýbúnir að sjúga beljuskít úr haughúsinu  undir fjósinu og smekkfylla haugsuguna sem tengd var við gamla Zetorinn þegar sá þriðji, sem reyndar var bóndinn sjálfur ákvað að setja allt í gang. Hann gerði það reyndar óvart, eða þannig voru hans útskýringar amk, en afleiðingarnar voru þær að haugsugan, eins og haugsugum er ætlað, byrjaði að spúa saur út um alla veggi og jörð og auðvitað okkur félagana tvo.  Það er eiginlega frekar súrt að ekki sé til ljósmynd af þessu.

En ok, gaman að þessu, ekki oft sem bjór tekur mann svona aftur í tímann. Fenrir er amk fullur af skít eins og haugsugan í denn, „full of shit“ eins og hinir Engilsaxnesku frændur okkar myndu orða það. Reyndar ekki beljuskít sem betur fer, slikt kæmi líklega ekki vel út.  Í raun er svo sem enginn skítur í bjórnum heldur er kornið reykt yfir hrossataði sem þannig gæðir kornið þessum eiginleikum.  Í munni er taðið nokkuð minna áberandi en þó vel merkjanlegt og reykurinn dásamlegur. Þetta er bjór sem kallar á mat, fullkominn matarbjór og ég sé strax fyrir mér einhverja flotta reykta ítalska pylsu og franska osta, eða massífa grillsteik. En já mjög sérstakur bjór er óhætt að segja, ég sakna þó dálítið meiri beiskju, hefði viljað meira humalbit með þessum skít enda um IPA að ræða. Engu að síður, ofsalega skemmtilegur bjór.

Græni karlinn var hins vegar ekki eins spenntur, „kúkalykt“ voru hans orð þegar hann prófaði bjórinn fyrst.  Það er nefnilega þannig að menn og konur verða held ég að fara í þennan bjór með alveg opnum hug og ekki missa gleðina ef bjórinn er skrítinn….þessi bjór Á NEFNILEGA AÐ VERA SKRÍTINN!