Evil Twin Jólabjór á hótelherbergi í Stokkhólmi!

IMG_2502-1Hér í Stokkhólmi er allt á kafi í jólum.  Jólaljós út um allt, jólakaffidrykkir, jólalög í öllum hornum og fólk á fullu að versla jólagjafir og svo auðvitað jólabjórinn í Systembolaget.  Ég hef haft það fyrir hefð sl 3 ár að skella mér til Stokkhólms í desember til að hlaða jólabatteríið og skoða nýja jólabjóra.  Þeir hérna hjá Systembolaget eru duglegir að panta inn nýja jólabjóra ár hvert.  Í ár eru það nokkrir sem hafa fangað athygli mína og m.a. þessi hér frá Evil Twin.  Sá heitir því undarlega nafni Christmas Eve At a New York City Hotel Room. Þó ég sé staddur á hótelherbergi í Stokkhólmi og það er ekki alveg jólanótt þá ákvað ég að smakka, þetta er eins nálagt því og ég kemst að vera í NYC á jólanótt.  Um er að ræða 10% imperial stout sem fær nokkuð góða dóma á veraldarvefnum.  Ég varð hins vegar ekki upprifinn. Í nefi eru ristaðir dálítið brenndir tónar.  Ögn sæta og brennt malt.  Í munni er hann með meðal fyllingu, nokkuð beiskur og þurr á tungu.  Afar lítil sæta en það er einmitt það sem ég vil fá í Imp stout, þ.e.a.s SÆTUNA.  Ristað kaffi, einhver jörð eða hnetur og svo bara mjög klassískt svona stoutyfirbragð.  Ekki snefill af jólafíling og get ég ekki með nokkru móti skilið afhverju þeir/hann hefur ákveðið að tengja þetta við jólin.  Jú jú, það er svo sem viðeigandi að eiga við svona bjór á köldrum vetrarkvöldum en þessi bjór er bara alls ekkert öðruvísi en margir aðrir imp stout bjórar frá Evil Twin.  Þetta er þannig séð samt hinn flottasti imperial stout og vel þess virði að smakka en alls ekki eitthvað sem maður sérpantar eða eltist við á enda veraldar.

Tap takeover á Microbar – tvíburaslagur!

Tap takeover á MicrobarÞað er alltaf gaman þegar pöbbar taka sig til og gera eitthvað til að brjóta upp vanann.  „Tap Takeover“ er virkilega spennandi uppátæki sem þýða má sem kranainnrás þó það hljómi alls ekki eins lostafullt.  Þetta þýðir einfaldlega að venjulegi kranabjórinn fær að víkja fyrir einhverju spennandi og oft á tíðum sjaldgæfu öli.  Í gær gerðist þetta á Microbar og var viðburðurinn kallaður „battle between the twins“ sem tilvísun í þá félaga og bræður Mikkel Borg frá Mikkeller  og Jeppe Jarnit-Bjergsø frá Evil Twin.  Frá hvorum bruggaranum voru þrír karlar á krana,frá Mikkeller Santas Little Helper 2012 þroskaður á koníakstunnum, Green Gold ný útgáfa og Arh Hvad tunnuþroskaður á Sauternes tunnum og frá Evil Twin voru það Even More Jesus Porter, Hipster Ale og Ron and The Beasty Ryan, allir á 1200kr glasið.

IMG_2490Frábært framtak sem mætti vel endurtaka aftur og aftur og jafnvel aftur.  Þó svo að meiningin hafi líklega ekki verið að krýna einhvern sigurvegara kvöldsins þá var þetta nú samt „battle“ ekki satt?  Ég smakkaði þá alla fyrir utan Green Gold sem ég var lítt spentur fyrir akkúrat þetta kvöld þar sem mun betri karlar voru í boði.  Hef margoft smakkað þann klassíska og mér liggur ekkert á að smakka þennan nýja.  Það voru stóru karlarnir sem áttu hug minn í gær og þá verð ég að segja að Mikkeller Santas Little Helper kom ofsalega vel út.  Maður segir það kannski ekki oft, en ég ætla að gera það núna, hann var í raun fáránlega flottur.  Hellingur af kókost í nefi og sætur blær sem minnir á vanillu.  Í bragði var hann flókinn og flottur með kókoskeim og sætu.  Koníakið kemur þarna vel í gegn.  Gríðarlega flottur bjór sem klárlega átti vinninginn þetta kvöld.

Það er reyndar erfitt að kasta svona fram þar sem enginn bjór var eins þetta kvöld.  Allir hver öðrum ólíkari og því kannski erfitt að segja hver var bestur.  Hins vegar má maður alveg vera í ákveðnum gír og í gær var ég í harðjaxlagírnum og vissulega í jólaskapi.  Það verður svo að segjast að Arh Hvad barrel aged var gríðarlega ljúfur, ofsalega flottur með tunnukeim, smáááá vanillu og svo brettið á sínum stað en dálítið mildari en klassíska útgáfan.  Þessi bjór átti vinninginn hjá all mörgum þarna í gær heyrðist mér.

Evil Twin Even More Jesus Porter átti einnig marga áhangendur en persónulega fannst mér hann ekkert sérstakur.  Vissulega flottur Imperial Porter/Stout en þar sem ég er svo sem lítið fyrir þennan stíl nema hann sé örlítið sætur þá er ekki mikið að marka.  Menn voru amk mjög sáttir við hann.  Ron the Beasty Ryan kom líka vel út, ofsalega brettaður og flottur Saison sem hægt er að drekka all day long allt árið um kring.  Ummm vonandi er eitthvað eftir af þessum í kvöld.

Já ofsalega vel lukkað kvöld hjá þeim á Micro.  Takk fyrir mig!