Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?

Brewdog Paradox Isle of Arran

IMG_2201-1

Paradox Isle of Arran.  Þessi bjór er hluti af svo kallaðri Paradox seríu frá Brewdog sem byggir á þeirri hugmynd að brugga imperial stout sem svo er látinn þroskast á whisky tunnum.   Á þann máta dregur bjórinn í sig ýmis skemmtileg einkenni frá tunnunum sem þegar hafa tekið í sig hluta af þeim braðflækjum sem finnast í  því whisky sem í þeim lá.  Þó svo að erfitt sé að fá það staðfest þá virðist það vera Rip tide imperial stoutinn þeirra Brewdogmanna sem notaður er í grunninn og svo notast þeir við whisky tunnur frá mismunandi framleiðendum.  Sjálfur er ég ekkert of hrifinn af Rip tide en útkoman er allt önnur þegar hann er orðinn Paradox.

Paradox Isle of Arran er 15% imperial stout sprottinn úr tunnum frá Isle of Arran sem er skosk whiskygerð.  Bjór þessi kom fyrst fram 2008 og er ekki hluti af fastri framleiðslu brugghússins en dúkkar þó upp endrum og eins. Nú fæst hann á Microbar og í sérpöntun í Vínbúðinni.

Sá harði segir : Sæt lykt stígur úr glasi með malti og ögn viðarkeim, spurning um tunnuáhrifin?  Í munni er þessi frábæri bjór þróttmikill og þéttur.  Flókinn á tungu með sinfoníu af stöffi fyrir laukana.  Sætt malt, vínlegar nótur, ögn brenndur og heitur.  Það er einnig viðarkeimur einhver sem líklega kemur frá Whisky tunnunum og svo látlaus sæt vanilla laaaangt aftur í bakgrunni. Ekki mikið whisky til staðar að mínu mati sem er kannski gott þar sem sá drykkur er alls ekki í uppáhaldi.  Eftirbragð er langt, sætt og notalegt og fjarar út í dálítið etanól sem þó kemur vel út.  Mikill hiti og hamingja.

Já þessi er einn af þessum flottu Imperial Stout bjórum sem Brewdog kann svo sannarlega að skapa.  Ofsalega flottur og heilsteiptur bjór sem gott er að njóta einan og sér eða jafnvel enn betra…með djúsí eftirrétt t.d. heitri eplaköku með vanilluís ja eða fara „all in“ og fá sér blauta franska súkkulaðiköku með ummm.

Sá græni: Þessi er kolsvartur og hættulegur að sjá fyrir grænjaxlana.  Hann er þó fallegur „black is beautiful“ og froðan kemur vel út.  Í nefi er sætur keimur.  Í munni er ofsalega mikið bragð og hann rífur dálítið í.  Ég held að menn verði að fara varlega í þennan, í það minnsta að vita út í hvað þeir eru að fara.  Þetta er alvöru bjór af ölgerð og því langt frá því að bragðast eins og Egils Gull.  15% gætu orðið mörgum ofviða.  Um að gera að prófa samt.