Steiktir sveppir með porter!

Steiktir sveppir með porter

Ummm sveppir eru bara dásamlegir

Mér datt í hug að deila þessu með ykkur.  Var rétt í þessu ljúka við ljúfa kvöldmáltíð.  Ég er mikið fyrir sveppi af öllum stærðum og gerðum.  Smjörsteiktir sveppir eru dásamlegt meðlæti eða bara réttur út af fyrr sig ef maður er sveppafíkill.  Í kvöld var frúin að malla pasta og sem meðlæti hafði hún ofnbakað smjörsteikt snittubrauð með sveppum og bræddum osti.  Hún lét mig sjá um að steikja sveppina þar sem ég hef sérstakt dálæti af því og hef þó ég segi sjálfur frá tekist ansi vel upp (enda ekki flókið verkefni svo sem).  Oft er best að hafa hlutina einfalda, að steikja sveppi úr smjöri og salta létt gefur góða raun en stundum er gaman að fikta og experimenta með kryddin.  Ég hef dottið niður á stórgóða kryddblöndu á sveppina.  Ég nota þetta á hamborgarann, sem meðlæti, í sósuna ofl.  Í kvöld ákvað ég að gera þessa blöndu ofan á brauðið en með dálitlu twisti að þessu sinni.  Í kvöld var ég að njóta Myrkva porter frá Borg, ég hef góða raun af því að nota hann til að sjóða upp hitt og þetta.  Ég bætti því dágóðri slettu á pönnuna, ummmm lyktin maður minn, dásamlegt alveg, ég stóðst ekki mátið og sullaði dálitlu meira á pönnuna enda spennandi að sjá hvernig þetta kæmi út, engin hætta á að skemma eitthvað hér! En já það sem ég geri annars venjulega er að steikja sveppina úr smjöri, nóg af því, krydda svo með salti, pipar, örlitlu chillikryddi og timian. Stundum steiki ég lauk með og rifinn hvítlauk, ég gerði það í kvöld.  Þetta er dásamlegt, svo þegar porterinn bætist við lyftist þetta allt upp á æðra stig og verður meira elegant og fullkomið.   Það erfiða hér er að tíma bjórnum, það verður dálítil togstreita um hvað mikið af bjór á að nota, þetta veltur bara á viljastyrk.

Þetta setti ég svo á snittubrauðin hennar Sigrúnar og hún reif svo ögn gráðost yfir, ekki of mikið því við viljum njóta sveppanna og loks rifinn ostur eftst.  Inn í ofn og svo bara njóta.

Ég átti ögn eftir að porternum sem ég gat svo drukkið með, fullkomið.

Foie Gras og Imperial Stout – einhver smakkað?

Foie Gras og Imperial Stout!

Chartier ofsalega vinsæll en ofmetinn?

Kannast einhver við staðinn? Ég valdi þessa mynd því á þessum stað í París fékk ég það besta Foie gras sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Ég er reyndar ekki mikill Foie gras maður í þeim skilningi að ég fæ það í raun sjaldan.  Rétturinn getur verð ofsalega góður eða bara eiginlega vondur.  Þetta er dálítið eins og créme brulée, hef smakkað ótal margar útgáfur, það virðist vera hægt að gera þann rétt á óendalega marga máta.  Nóg um það, staðurinn sem ég er að tala um þarna á myndinni heitir Chartier og ku vera ofsalega vinsæll resturant í París.  Okkur var bent á það af heimamönnum að fara þarna svo við gerðum það, staðurinn á að vera ódýr og með hágæða mat.  Við stóðum í ofsalegri röð til að komast þarna inn.  Þegar inn var komið tók við stór salur fullur af fólki.  Allt á iði, brjáluð læti, þjónar hlaupandi út um allt kófsveittir og með blæðandi magasár af stressi.  Við tókum eftir því á meðan við biðum eftir matseðlinum að fólk var nánast rekið út um leið og það renndi niður síðasta bitanum.  Ekki alveg staðurinn til að eiga rómatíska stund en samt heilmikil upplifun og í raun alveg þess virði að fara þarna bara til að fá besta Foie gras í heimi!!!

Nú er ég mikið að spá í pörun matar og bjórs.  Þegar ég sat þarna og smjattaði á þessu lostæti fór ég að spá í hvaða bjór kæmi vel út með.  Rauðvínið var ágætt en bjór væri enn betra held ég.  Ég fór að máta í höfðinu og datt í hug eitthvað þróttmikið Imperial Stout eða barley wine?  Ég held að það gæti verið stórgóð blanda, þrumu bjór, mikið bragð og svo mjúkur ofsalega ljúfur Foie gras ummmm.  Vandinn er að bjórinn er ekki til þar sem maður fær réttinn eða öfugt.  Það er því ekki hlaupið að þessu.  Hvað haldið þið lesendur góðir?  Hefur einhver smakkað þessa pörun? Getur annars einhver bent á stað sem býður uppá góðan Foie gras?