Stundum er ég svo heppinn að það rata á borð til mín skemmtilegir karlar úr smiðjum heimabruggara landins. Að þessu sinni er það Digri brugghús sem lofar mér að smakka. Ég hef smakkað frá þeim tvo bjóra áður og var ég sérlega ánægður með Batman í Blautri Skikkju frá þeim, virkilega flottur imperial stout þar. Í kvöld er það hins vegar bjór sem ég hef reyndar vitað af lengi og segja má að ég hafi fylgst með fæðingu hans í gegnum munnmæli Digra manna, Imperial Stout heitir hann bara. Ekki datt mér í hug að ég fengi smakkprufu frá þeim félögum því um afar lítið upplag er að ræða og bjórinn ofsalega spennandi og má segja afar sjaldgæfur bjór, hér á landi amk. Ég nánast leyfi mér að fullyrða að enginn hefur bruggað svona bjór hér á landi áður. Vissulega kannski svipað „konsept“ en ekki með svona sögu. Já Digri notar nefnilega notaða Bourbon Whisky tunnu frá Mikkeller sem hefur verið notuð til að þroska bjór-whisky í svo kölluðu spirits verkefni Mikkellers. Hefur einhver gert það áður hér? Hvað sem því líður, hér er maður vitni af því þegar heimabrugg er komið á næsta stig…..“beond homebrew“ hvorki meira né minna. Þessi magnaði bjór hefur allt að bera og jafnvel umbúðirnar gefa skýr skilaboð um fágaða og vandaða vöru. Sjálfur hef ég verið með á „todo“ listanum mínum lengi að vaxa flöskutappann á mínu heimabruggi líkt og Mikkeller, Three Floyds og allir þessir stóru flottu gera svo gjarnan með eðalölið sitt. Hingað til hef ég bara ekki gert nógu flott og pótent öl sem á það skilið. Digri er hér kominn með öl sem eiginlega verður bara að vera innsiglað á svona elegant máta. Miðinn er svo annað mál og ekki minna en þar má sjá virkilega elegant en einfalda mynd sem kemur afar smekklega út. Fullt hús stiga fyrir umbúðirnar.
Bjórinn er kolsvartur og flottur með nettan froðuhaus sem heldur velli. Ég valdi að sjálfsögðu flott Mikkeller glas undir þennan Digra/Mikkeller fusion bjór ef svo má segja. Það er svo ofsalega flottur kemur í nefi þar sem viður er áberandi og klárlega whisky. Það er svo ööööörlítill aukakeimur sem ég stundum finn af heimabruggi og stundum truflar mig. Veit ekki hvaða þetta kemur, í kvöld hins vegar er svo mikið annað sem fangar athygli mína í nefi að þetta truflar alls ekkert.
Í munni er mikið að gerast, gríðarlegt bragð, mikill hiti og hamagangur og svo er bourbon whisky allsráðandi. Ofsalega flottur keimur. Humlar gefa einnig flotta beiskju og svo kemur einhver notaleg vínleg sæta fram þegar líður á. Eftirbragð hugljúft og gott og maður einfaldlega verður að drífa sig í næsta sopa.
Já þessi guttar eiga hrós skilið, þennan bjór gæti maður hæglega séð á svona 2000 kr í ÁTVR ef hann væri í sölu. Kærar þakkir fyrir mig!!!