Tap takeover á Microbar – tvíburaslagur!

Tap takeover á MicrobarÞað er alltaf gaman þegar pöbbar taka sig til og gera eitthvað til að brjóta upp vanann.  „Tap Takeover“ er virkilega spennandi uppátæki sem þýða má sem kranainnrás þó það hljómi alls ekki eins lostafullt.  Þetta þýðir einfaldlega að venjulegi kranabjórinn fær að víkja fyrir einhverju spennandi og oft á tíðum sjaldgæfu öli.  Í gær gerðist þetta á Microbar og var viðburðurinn kallaður „battle between the twins“ sem tilvísun í þá félaga og bræður Mikkel Borg frá Mikkeller  og Jeppe Jarnit-Bjergsø frá Evil Twin.  Frá hvorum bruggaranum voru þrír karlar á krana,frá Mikkeller Santas Little Helper 2012 þroskaður á koníakstunnum, Green Gold ný útgáfa og Arh Hvad tunnuþroskaður á Sauternes tunnum og frá Evil Twin voru það Even More Jesus Porter, Hipster Ale og Ron and The Beasty Ryan, allir á 1200kr glasið.

IMG_2490Frábært framtak sem mætti vel endurtaka aftur og aftur og jafnvel aftur.  Þó svo að meiningin hafi líklega ekki verið að krýna einhvern sigurvegara kvöldsins þá var þetta nú samt „battle“ ekki satt?  Ég smakkaði þá alla fyrir utan Green Gold sem ég var lítt spentur fyrir akkúrat þetta kvöld þar sem mun betri karlar voru í boði.  Hef margoft smakkað þann klassíska og mér liggur ekkert á að smakka þennan nýja.  Það voru stóru karlarnir sem áttu hug minn í gær og þá verð ég að segja að Mikkeller Santas Little Helper kom ofsalega vel út.  Maður segir það kannski ekki oft, en ég ætla að gera það núna, hann var í raun fáránlega flottur.  Hellingur af kókost í nefi og sætur blær sem minnir á vanillu.  Í bragði var hann flókinn og flottur með kókoskeim og sætu.  Koníakið kemur þarna vel í gegn.  Gríðarlega flottur bjór sem klárlega átti vinninginn þetta kvöld.

Það er reyndar erfitt að kasta svona fram þar sem enginn bjór var eins þetta kvöld.  Allir hver öðrum ólíkari og því kannski erfitt að segja hver var bestur.  Hins vegar má maður alveg vera í ákveðnum gír og í gær var ég í harðjaxlagírnum og vissulega í jólaskapi.  Það verður svo að segjast að Arh Hvad barrel aged var gríðarlega ljúfur, ofsalega flottur með tunnukeim, smáááá vanillu og svo brettið á sínum stað en dálítið mildari en klassíska útgáfan.  Þessi bjór átti vinninginn hjá all mörgum þarna í gær heyrðist mér.

Evil Twin Even More Jesus Porter átti einnig marga áhangendur en persónulega fannst mér hann ekkert sérstakur.  Vissulega flottur Imperial Porter/Stout en þar sem ég er svo sem lítið fyrir þennan stíl nema hann sé örlítið sætur þá er ekki mikið að marka.  Menn voru amk mjög sáttir við hann.  Ron the Beasty Ryan kom líka vel út, ofsalega brettaður og flottur Saison sem hægt er að drekka all day long allt árið um kring.  Ummm vonandi er eitthvað eftir af þessum í kvöld.

Já ofsalega vel lukkað kvöld hjá þeim á Micro.  Takk fyrir mig!

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Hættulega nálægt því að vera fáránlega góður DIPA

Mér er það í raun ekki sönn ánægja að tilkynna að nú er hægt að fá þessa mögnuðu perlu á krana á Microbar.  Ástæðan er bara sú að um er að ræða imperial IPA sem er hættulega nálægt því að vera fáránlega góður og ég kemst ekki í kvöld til að klára hann.  Ég veit eða grunar að hann klárist í kvöld á Mivrubar. Ég er að tala um  Dangerously Close To Stubit frá hinu magnaða bruggfyrirbæri To Øl.  Bjórinn er ein 9.3% og á maður ekki nokkurn möguleika á að finna það í bragði svo mikil eru gæðin í bjórnum.  Fáránlega fallegur í glasi, mattur og fínn með hættulega fallega froðu.  Í nefi er ofsalega ljúfur keimur, haugur af blómum og ávöxtum sem merki um að bjórinn er hér serveraður algjörlega á hárréttum tíma, ferskari gerist þetta varla miðað við landafræðina.  Í bragði njóta humlarnir sín einnig, beiskjan er ofsalega mjúk og fín en þó alveg til staðar já já, bara ekki hvöss ef svo má orða það.  Sætur undirtónn sem heldur vel á móti, mikill þéttleiki og ofsalega ljúfur sætbeiskur eftirkeimur með ávaxtablæ.   Ég held að það sé orðið langt síðan ég smakkaði svona flottan DIPA/Imperial IPA.
Já ég er ofsalega sár yfir að komast ekki í þetta í kvöld en nýt þess þá bara í gengum ykkur.

Græni karlinn: Ég er næstum orðlaus, var hálf hræddur í fyrstu en stemningin og hamingjan á Microbar gerði þetta bara svo magnað.  Lyktin er ljúf og fín með sætum ávöxtum.  Það er vissulega mikið bragð af þessum bjór og hann fyllir vel í munn.  Beiskjan er til staðar en er einhvern veginn ekki svo átakanleg eins og búist var við.  Þetta er klárlega bjór fyrir fólk sem vill fá almennilegt bragð.  Það má amk smakka.

Húsbjór á Kaffibarnum – bjórmánuður!

Húsbjór!!! Hústónlist og eðalöl á Kaffibarnum

Frábærar fréttir af Kaffibarnum fyrir bjórnerði nær og fjær.  Kaffibarinn hefur lengi verið eini almennilegi staðurinn hér í borg að mati undirritaðs þar sem hægt er að fá almennilega tónlist til að dilla sér við framundir morgun.  Það hefur einnig verið hægt að fá einn og einn eðalbjórinn til að halda sér köldum. Nú ætla þeir þó að bæta um betur og hafa „bjórmánuð“ bara fyrir okkur nerðina, og svo auðvitað alla hina líka! Húsbjór mætti kalla þetta uppátæki, house music and beer, frábær blanda! Alla vega, bjórlistinn er ekki alveg klár en hann mun birtast á fésbókarsíðu Kaffibarsins á næstunni en meðal gesta á barnum má nefna ofurmenni á borð við Orval, Chimay, Duvel, fullt af Mikkeller og Brewdog ásamt fleiru.  Það verður gaman að fylgjast með þessu hjá þeim.  Frábært uppátæki.  Undirritaður verður amk með annan fótinn á Kaffibarnum næsta mánuðinn, til í bjórspjall og létta sveiflu.

Súr stemning á Microbar!

Já nú er það súrt á Micro!  Ekki að það sé neitt neikvætt samt, nei þvert á móti, þessu ber að fagna. Það er dálítið gaman hvað maður getur leyft sér að segja í bjórheiminum og það er svo túlkað sem jákvætt, eitthvað sem venjulegt fólk myndi tengja við neikvætt. Lítið dæmi, fúkkalykt!  Fer eftir stíl, þarf því alls ekki að vera neikvætt.  En að því súra á Microbar.  Sumir líklega búnir að fatta hvað ég er að fara, þeir geta þá klappað sér á öxlina, eitt bjórnördastig þar.  Já ég er að tala um bjór því nú er hægt að fá með þeim allra bestu villibjórum sem þessi veröld hefur að bjóða á Microbar.

Image

Við erum að tala karla á borð við Cantillon Iris, Cantillon Gueuze, Cantillon Kriek, Gueuze Girardin black label, og 3 fonteinen oude geuze.  Allt ofsalega flottir, svokallaðir villibjórar eða „brett“ bjórar ef maður slettir rosalega.  Ég hef smakkað þá alla og allt eru þetta framúrskarandi villibjórar og ekki svo sjálfsagt að fá þessa bjóra á bar og ég tala nú ekki um á litla Íslandi. Ég get mælt með þeim öllum og hvet fólk til að reyna að ná sér í nokkra dropa.

Hvað er villibjór?
Skoðum aðeins þennan merka bjórstíl. Èg kalla stílinn villibjór en lambic er í raun réttara nafn og stundum hefur maður heyrt  orðið sjálfgerjaður bjór sem er kannski ekki svo vitlaust.  Þetta er forn og dularfullur belgískur bjórstíll og er hægt að finna vísbendingar um að hann hafi verið bruggaður allt aftur til ársins 1559.  Stíllinn á rætur sínar að rekja til Belgíu í kringum höfuðborgina Brussel,  nánar tiltekið frá héruðum suðurvestur af borginni en einnig var hann og er reyndar enn bruggaður í borginni sjálfri (Cantillon brugghúsið).  Ástæða þess að alvöru lambic var aðeins bruggaður á þessum slóðum liggur nefnilega í loftinu.  Já bjórinn er sem fyrr segir villibjór í þeim skilningi að ólíkt hefðbundum nútímalegri bruggaðferðum þar sem sérvalið einangrað bruggger er bætt út í urtina (bruggvökvann) þá er það ger sem er á sveimi í andrúmsloftinu, villt ger, leyft að gerja bjórinn.  Á þessum slóðum eru það gersveppirnir Brettanomyces bruxullensis og Brettanomyces lambicus sem leika þarna stærsta hlutverkið en fjöldi mismunandi örvera í andrúmsloftinu þarna nemur einhverjum tugum.  Þessir gersveppir gefa mjög sérstakt, einkennandi bragð og lykt í bjórinn. Oft er bara talað um „brett“ keim þegar bjórnum er lýst og sumir telja að „funky“ lýsi þessu eitthvað betur.  Hvorugt segir manni nokkuð nema maður hafi smakkað þessa bjóra áður og veit hvað maður á að tengja við þessi lýsingarorð.  Sjálfur upplifi ég þessa bjóra sem dálítið súra eða sýrða, ekki þó eins og sítrónukeimur, frekar svona eins og mjög þurrt hvítvín eða mysa.  Lyktin er líka dálítið spes, fúkkalykt, mysukeimur, smá sýra og ger.  Ég veit að þetta hljómar kannski ekki vel en bjórinn er dásamlegur og svalandi.   Til að fara alveg með rétt mál þá er ég hér í raun að lýsa afbrigði af lambic eða svokölluðum gueuze sem er blanda af þroskuðum lambic og ungum óþroskuðum lambic.  Gueuze er mun meira lifandi og frísklegri og vinsælli fyrir vikið.  Alvöru lambic, þ.e.a.s. 100% lambic er flatur og goslaus og 

IMG_2633

Iris smakkaður í fyrsta sinn á Ølbaren KBH.

mjög spes.  Það er mjög takmarkað framboð af þessum bjór í heiminum í dag en þó er hægt að fá hann á krana á nokkrum krám í Brussel.

Lambic er í grunninn hveitibjór í þeim skilningi að í hann er notað maltað hveiti í ca 30% á móti möltuðu byggi 70%.  Svo auðvitað humlar til að bragðbæta.  Humlar spila þó lítið hlutverk og eru alls ekki einkennandi í bragði eða lykt. Oftast eru jafnvel mjög gamlir humlar notaðir til að draga enn frekar úr áhrifum þeirra á bjórinn.  Áður nefndur Iris frá Cantillon er reyndar ekki bruggaður eftir þessum forskriftum því í hann er aðeins notað bygg (malt) og ekkert hveiti.

Ferlið – lambic og gueuze verður til!
Í stuttu máli er þetta þannig.  Fyrst fer fram mesking þar sem sykrur og prótein eru unnin úr maltinu svo sem ekkert sérstakt hér á ferð.  Útkoman er sykraður vökvi, bruggvökvinn eða urt eins og hann kallast á fellegri íslensku.  Því næst er bragðbætt aðeins með þurrum gömlum humlum.  Til að hafa það á hreinu þá er ég hér að fjalla um gömlu (oud) ósviknu aðferðina, en í dag eru margir farnir að fara frjálslegri höndum um gerð villibjóra og humlar leika oft stórt hlutferk. Nú er allt klárt fyrir gerjunina.  Urtinni er nú dælt upp í grunn föt sem oftast eru að finna efst uppá háalofti í brugghúsunum, jafnvel uppá þaki.  Þar fær urtin að liggja berskjölduð fyrir öllum þeim örverum sem fyrirfinnast í andrúmsloftinu umhverfis brugghúsið – hið einstaka „Brusselloft“ t.d.  Hlutfall gersveppana þarf að vera rétt, ekki of mikið af bakteríum sem skemma bjórinn en þær blómstra t.d. um sumarmánuðina. Menn hafa fundið það út að heppilegasta tímabilið þar sem skilyrðin eru alveg rétt eru frá október til apríl.  Það er því aðeins hægt að gera þessa bjóra á ákveðnum tíma árs og erum við því að tala um árstíðarbjór eða seasonal bjór.  Bjórinn er í raun aldrei alveg eins frá ári til árs því flóra andrúmsloftsins tekur örlitlum breytingum og sveiflum, það er því hægt að tala um misgóða árganga í þessum efnum.

Bjórinn er semsagt látinn safna í sig örverunum úr andrúmsloftinu yfir sólarhring eða svo og svo settur á eikartunnur þar sem gerjunin fer fram og svo þroskun.  Lambic er látinn dúsa þannig á þessum tunnum í ein 2-3 ár.  Við þessa meðferð tapar hann nánast allri kolsýrunni sem myndast við gerjunina og er því flatur og dálítið „dauður“.  Þessi bjórstíll er því alls ekki allra.  Gueuze er öllu vinsælli bjórstíll og af sumum nefndur kampavín bjórheimsins enda aðferðin við gerð gueuze og champagne kannski ekki svo ólík.  Við það að blanda saman í flöskur ungum lambic sem enn inniheldur fullt af sykri og svo gömlum flötum lambic til að fá rétta bragðið á sér stað gerjun í flöskunni, seinni gerjun og við það myndast gosið sem gerir bjórinn svo spriklandi og flottan.  Svo er hægt að leika sér enn frekar með þennan grunn og skapa ávaxtabjóra ýmis konar á borð við Kriek, Frambozen og fleiri allt eftir því hvaða ber eru notuð í gerjunina en það er nú allt annað ævintýri.

Karlinn í Cantillon!

Stíll í útrýmingarhættu?
Fyrir ekki svo löngu síðan var lambic og gueuze ekki að gera það svo gott í heiminum.  Menn voru farnir að sækjast meira í mun sætari útgáfur með viðbættum sykri, gerfvi lambic eins og ég kalla þær.  Þessir drykkir þóttu auðveldari til drykkju og höfðaði meira til yngra bjórdrykkjufólks.  Það var nú ekki lengra síðan en 2003 þegar ég heimsótti Cantillon brugghúsið í Brussel í eftirmynnilegri ferð að ég komst að því að alvöru lambic væri á undanhaldi.  Ég átti skemmtilegt samtal við frúnna á bænum, eina af Cantillon fjölskyldunni og eigendum brugghússins.  Hún leyfði mér að smakka alls kyns furðubjóra, sumir hverjir svo magnaðir að orð fá því ekki lýst.  Hún sagði mér að bjór þeirra sem vissulega er alvöru lambic bjór væri alveg óvarin gagnvart innrás „gervi lambics“.  Ólíkt munkabjórnum, Trappist, sem ber varið Trappist merki til marks um að um ósvikna vöru sé að ræða þá er ekkert slíkt til fyrir lambic.  Menn geta kallað hvaða bjór sem er lambic eða gueuze.
Eitthvað virðist þetta nú vera að breytast síðustu árin sem betur fer, líklega að hluta til vegna áhuga flottustu örbrugghúsa heims á stílnum.  Stóru nöfnin á borð við Mikkeller, Brewdog, To Öl, Stone ofl eru farin að brugga ýmsar útgáfur af villibjórum sem sæta mikilla vinsælda í dag.  Þó svo að gömlu ósviknu aðferðinni sé kannski ekki fylgt til hins ítrasta þá eru þetta margir hverjir virkilega flottir bjórar með einkennandi gueuze eða „brett“ yfirbragð oft á tíðum og ekki með viðbættum sykri og gosi.  Þetta hefur t.d. hleypt aftur lífi í Cantillon og fleiri af gömlu góðu lambic brugghúsum belgíu sem nú eru orðin mjög eftirsótt.  Það þykir jú alltaf flott að fá ósvikna upprunalega bjórinn ekki satt? Þá erum við aftur komin að upphafs málsgreininni, súru stemningunni á Microbar þar sem nú fást einmitt þessir flottustu villibjórar veraldar.

Ég skellti mér á Microbar um daginn í þeim tilgangi að undirbúa bragðlauka mína fyrir þá miklu Cava drykkju sem framundan er þar sem ég er að fara til Barcelona í tvær vikur (pistill um það síðar).  Gueuze er nefnilega tilvalin brú á milli bjórs og Cava 🙂

Mikkeller Beer Geek Vanilla Shake

Image

Á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake

Beer Geek Breakfast var sá bjór sem kom Mikkeller á kortið á sínum tíma.  Hann hefur slegið í gegn hvar sem hann kemur fyrir í heiminum og allir sannir bjórnördar kannast við kauða.  Sjálfur var og er ég ekkert sérlega hrifinn af honum.  Þetta er vissulega mjög vandaður hafrastout og að nota gourmet kaffi í hann er vel þegin hugmynd.  Hins vegar kveikti hann ekki í mér, þannig er það bara.  Síðan þá hafa komið fram nokkrir nýjir bjórar sem tilheyra þessari beer geek seriu ef svo má segja.  Ég hef smakkað þá nokkra án þess að vera neitt yfir mig hrifinn.  Hins vegar varð ég ofsalega ánægður með Beer Geek Brunch Weasel sem er virkilega flottur imperial stout. Ég viðurkenni að ég er dálítið fyrir sætuna og ég elska vanillu, súkkulaði og kaffi og bjóráhuginn fer líklega ekki á milli mála.  Þegar ég sá svo að þeir voru að sulla þessu öllu saman í bjór var ég staðráðin í að komast yfir eintak.  Nú er þessi spennandi karl kominn hingað til okkar á Microbar, Beer Geek Vanilla Shake, 13% imperial hafrastout.  Bjórinn er bruggaður í norska brugghúsinu Lervig sem Mikkel er farinn að eiga mikil viðskipti við upp á síðkastið.

Planið í kvöld var reyndar að undirbúa yfirvofandi ferð til Barcelona yfir notalegu spjalli á Microbar með Cantillon Iris við hönd. Plön eiga það hins vegar til að fjúka út um gluggan og í staðinn sit ég hér einn heima (reyndar með hundinum), sólbrunninn eftir einn af 3 sólardögum sumarsins og drekk þennan öfluga imperial stout.  Allt annað en Iris.  Ferðin er þó enn fyrirhuguð eftir 6 daga.  Þegar ég opnaði flöskuna og hellti í glasið varð ég pínu skeptískur því það er haugur alveg af vanillu og súkkulaði sem ryðst upp úr glasinu.  Eiginlega um of, jafnvel fyrir sykurtönn eins og mig.  Ég varð eiginlega bara vonsvikinn.  Svo fékk ég mér sopa og þá liðu allar áhyggjur úr skrokk eins og hendi væri veifað.  Ummm, bjór þessi er ofsalega mjúkur og mikil fylling í honum.  Öflugur og bragðmikill með fullt af beiskju og ristuðu, brenndu jafnvel malti en svo fullt af vanillu og súkkulaði án þess þó að vera of væminn eða sætur.  Biturt kaffið kemur einnig til móts við sætuna, eins og svona eitt til tvö espresso skot með dash af vanillu. Nammi namm. Eftirbragð er svo dálítið beiskt með kaffi og brenndu malti.  Mjög ljúft allt saman.  Svo er spurning hvað varð um öll þau 13% áfengis sem leynast í flöskunni?  Maður verður þess ekki var nema í hita og hamingju.

Ég skrifaði þennan dóm jafnóðum á meðan ég var að smakka bjórinn.  Ég verð þvi að bæta við hér án þess að fara upp og breyta að þega líður á bjórinn þá verður hann nánast of mikið af því góða og ég held að ég geti bara tekið einn svona á kvöldi.  Bjórinn er reyndar ekki alveg búinn þegar þetta er ritað 🙂

Sá græni: Nú reynir á, risabjór fyrir litla bragðlauka.  Þegar hér er komið sögu ættu menn ekki lengur að vera hræddir við svarta litinn, við höfum lært að liturinn segir alls ekki allt.  Í nefi er ofsalega mikil lykt þar sem súkkulaði er mest áberandi.  Í munni er svo ofsalega mikið bragð og hann er mjög mjúkur í munni.  Beiskjan er áberandi en líka þessi súkkulaði kaffikeimur.  Þessi bjór er alls ekki fyrir veikar sálir og ég færi varlega í það að eyða peningum í hann einn á báti.  Væri þó sniðugt að kaupa flösku 3-4 saman bara til að smakka þessa geðveiki!

Citrus Dream á Kexinu NÚNA!!!

Nýr pilsner frá Mikkeller, Citrus Dream

Nýr pilsner frá Mikkeller, Citrus Dream

Ég fór á Kexið í gærdag til að næla mér í Mikkeller 19 áður en hann kláraðist.  Mér líkaði svo vel við bjórinn að ég dró frúnna sem er mikil bjórkona aftur á Kexið um kvöldið til að smakka.  Því miður var 19 búinn á flotta krananum en í staðinn kominn undir Mikkeller Citrus Dream sem er alveg glænýr bjór frá Mikkeller.  4.6% pilsner sem bruggaður er með Citra humlinum og svo appelsínu og sítrónuberki.  Þeir nota enn fremur maís og hafra í bjórinn.  Flottir! Þessi bjór er fallegur í glasi, tær og glæsilegur eins og sönnum pilsner sæmir. Í nefi er ávaxtasprenging þar sem mangó er í aðalhlutverki og svo snefill af appelsínu og örlítið ristað malt.  Í munni er svo allt annað uppá tengingnum.  Maður finnur vissulega að þetta er ekki öl, það er þetta pilsner/lager yfirbragð sem þið áttið ykkur á þegar þið smakkið sjálf.  Það er einnig nokkur ávaxtakeimur sem þó ekki er eins áberandi og í nefi.  Hann er dálítið rammur, sítrusbörkur og furunálar.  Nær þó ekkert í áttina að IPA í beiskjunni enda alls ekki tilgangurinn.  Bjór þessi er algjörlega málið núna, sérstaklega í dag í svona sól og hita.  Frábær sumarbjór sem vert er að eltast við en það er um að gera að vera fljótur til því kauði klárast líklega fljótt eins og Mikkeller 19.

Sá græni er voðalega ánægður. Hér er kominn bjór sem bragð er af án þess að hann sé of mikill.  Rosalega flott ávaxtalykt og sæta.  Í munni er þetta svo bara eins og lagerinn nema bara með meiri snerpu og ávöxtum.  Ég tel að allir geti notið þessa bjórs án vandræða.