Góðar veigar í sólinni…sólveigar?

Nú er sólin að koma fram og þá er gott að drekka góðar veigar...sólveigar? „Sumarið er tíminn þegar kvenfólk springur út“ söng skáldið eitt sinn og vissulega er eitthvað sannleikskorn í því.  Sumarið er einnig tíminn fyrir sól og svalandi  veigar eða það finnst okkur hér á bjórspeki amk.  Það vill svo skemmtilega til að Borg brugghús virðist líka sömu skoðunnar því þeir hafa nú skapað enn einn bjórinn, sumarveigar sem  þeir kalla Sólveig og er rétt að taka það fram að undirritaður er stórhrifinn af nafngiftinni enda ekki annað hægt ég meina kommon, sól og veigar! Það sama á reyndar við um bjórinn sem er stórgóður.  Um ræðir þýskan hveitibjór með haug af humlum af amrískum toga og má því tala hér um amerískþýskan hveiti IPA en þessi bjórstíll hefur verið dálítið vinsæll undanfarið meðal bjórnörda.  Með þessu móti fær maður fram svalandi áhrif hveitibjórsins sem er svo dásamlegur í sumarsólinni en svo þetta ómótstæðilega humalkick úr humlunum sem gerir bjórinn svo vanabindandi.  Þessa eiginleika tekst þeim hjá Borg vel að ná fram að mati okkar hér.  Bjórinn er fallegur í glasi, gruggugur og flottur með myndar haus.  Í nefi er þessi einkennandi gerkeimur sem gefur svo áberandi ávaxtakeim sem minnir helst á banana.  Humlarnir koma svo einnig vel fram og tvinnast inn í þetta með mjög skemmtilegri útkomu. Í munni er bjórinn afar hressandi, fylling í meðallagi, hann er mildur og svalandi eins og sumarbjór á að vera og humlarnir alveg mátulega áberandi með sína beiskju og blómlegheit.  Ég myndi segja að hér væri frábær bjór fyrir þá sem fíla hveitibjórinn en vilja svo eitthvað aðeins meira bit.  Þessi bjór verður einn af sumarbjórunum okkar hér á Bjórspekinni þetta árið.

Það má svo taka það fram að bjórinn fæst nú á krana víða, m.a. á Skúla Craft Bar og líklega víðar og svo er hann kominn í ríkið líka?

Lítill bitur gaur á Microbar

photo (14)Það er orðið dálítið langt síðan maður gat lofað sér að staldra við á uppáhalds barnum sínum og sötra bjór.  Maður er bara of upptekinn í vinnu öllum stundum.  Ég ákvað þó að laumast eftir kvöldvakt um daginn til að reka tungu ofan í nýja bjórinn þeirra Gæðinga sem þeir kalla “litla” bitter.    Bjórinn kalla þeir litla þar sem hann er aðeins um 4% í áfengi.  Mér skilst að upphaflega hafi þetta átt að vera annars konar bjór en svona er það nú oft, hlutir breytast, ákvarðanir eru teknar og útkoman er svo bara eitthvað allt annað en upphaflega var lagt upp með.  Það er það sem er skemmtilegt við þennan bruggheim.  Alla vega, bjórinn er bara stórfínn, þetta er léttur karl, mildur, mikil kornlykt í nefi og grösugir humlar.  Ekki þó áberandi blóm eða ávextir en mér skilst að bjórinn hafi verið þurrhumlaður í drasl.
Á tungu er hann þægilegur, og beiskjan kemur vel fram en er langt frá því að standa undir “bitter” nafninu í þeim skilningi sem hinn almenni borgari leggur oftast í nafnið.  Ég held að fólk fælist almennt dálítið frá þegar þeir heyra nafnið en hér er um að gera að lofa bragðlaukum frekar að dæma.  Hann er einnig dálítið maltaður og fylling í meðallagi.  Minnir dálítið á lager með stolt og sjálfstraust ef svo má segja.
Það er svo sem rétta rólið fyrir stílinn, english bitter  sem á að vera frekar léttur í áfengi, maður á amk ekki að finna það, humlar eiga ekki að vera áberandi í bragði en þó á beiskjan að vera merkjanleg.  Það er svo spurning orðið hvort maður eigi yfir höfuð að tala um stíla þar sem mörkin eru farin að vera svo óljós í dag.  Það er þó gott að hafa einhver viðmið.

Ég kunni virkilega vel að meta þennan flotta strák og Græni karlinn var mér loksins hjartanlega sammála, auðdrekkanlegur, þægilegur og umfram allt góður lítill bjór.  Hver segir að 4% sé of lítið?  Klárlega skella þessu á flöskur, ja eða dósir bara!