
Notalegur og frískandi sumarkarl
Mikkeller Peter, Pale and Mary – Mikkeller framleiðir svo mikið af bjór að það er nánast vonlaust að fylgjast með. Síðan þeirra er einnig frekar ruglingsleg og oftast lítið af upplýsingum um bjórinn þeirra. Það virðist sem það sé dálítið „cool“ bara að slengja fram einhverjum stykkorðum og smá vísbendingum á fésbókinni en án þess þó að útskýra almennilega um hvað ræðir. Þetta virkar sennilega vel, vekur forvitni og menn kalla á eftir upplýsingum. Stundum er þetta hins vegar bara pirrandi.
Hvað um það, þessi bjór er af gerðinni pale ale í léttari kantinum. Eins og svo oft áður þá er hann bruggaður í De Proef í Belgíu. Nafnið hefur líklega einhverja sögu á bak við sig….eða ekki? Það skiptir ekki nokkru máli, það er bjórinn sem um ræðir.
Í nefi eru mikil blóm og humlar, líklega Mosaic ef ég þekki hann rétt. Í munni er um ofsalega flottan bjór að ræða. Mikið af ávöxtum, ferskjur, og mangó? Þægilega þurr, beiskja notaleg ofsalega léttur og sumarlegur. Já mjög sumarlegur bjór bara með notalegum ávaxtakeim og beiskju í eftirbragði.Frábær sumarbjór sem ég mæli klárlega með, fæst í vínbúðinni, amk Heiðrúnu og Skútuvogi….eru menn eitthvað að þvælast annað hvort eð er?
„Sumarið er tíminn þegar kvenfólk springur út“ söng skáldið eitt sinn og vissulega er eitthvað sannleikskorn í því. Sumarið er einnig tíminn fyrir sól og svalandi veigar eða það finnst okkur hér á bjórspeki amk. Það vill svo skemmtilega til að Borg brugghús virðist líka sömu skoðunnar því þeir hafa nú skapað enn einn bjórinn, sumarveigar sem þeir kalla Sólveig og er rétt að taka það fram að undirritaður er stórhrifinn af nafngiftinni enda ekki annað hægt ég meina kommon, sól og veigar! Það sama á reyndar við um bjórinn sem er stórgóður. Um ræðir þýskan hveitibjór með haug af humlum af amrískum toga og má því tala hér um amerískþýskan hveiti IPA en þessi bjórstíll hefur verið dálítið vinsæll undanfarið meðal bjórnörda. Með þessu móti fær maður fram svalandi áhrif hveitibjórsins sem er svo dásamlegur í sumarsólinni en svo þetta ómótstæðilega humalkick úr humlunum sem gerir bjórinn svo vanabindandi. Þessa eiginleika tekst þeim hjá Borg vel að ná fram að mati okkar hér. Bjórinn er fallegur í glasi, gruggugur og flottur með myndar haus. Í nefi er þessi einkennandi gerkeimur sem gefur svo áberandi ávaxtakeim sem minnir helst á banana. Humlarnir koma svo einnig vel fram og tvinnast inn í þetta með mjög skemmtilegri útkomu. Í munni er bjórinn afar hressandi, fylling í meðallagi, hann er mildur og svalandi eins og sumarbjór á að vera og humlarnir alveg mátulega áberandi með sína beiskju og blómlegheit. Ég myndi segja að hér væri frábær bjór fyrir þá sem fíla hveitibjórinn en vilja svo eitthvað aðeins meira bit. Þessi bjór verður einn af sumarbjórunum okkar hér á Bjórspekinni þetta árið.