
Steðji er nýjasta brugghúsið á Íslandi. Þetta er dálítið skrítið lítið brugghús í Borgarfirðinum. Þeir byrjuðu að gera frekar einfaldan lager með líklega ljótasta merkimiða sem sést hefur. Þeir hafa reyndar lagað aðeins til merkimiðann og er hann þolanlegur núna. Þeir hafa svo gert jólabjór, páskabjór, dökkan bjór, sítrusbjór og svo þennan reykta bjór. Reyndar sá ég í hillum ÁTVR áðan jarðaberjabjór en mig langaði bara ekki að prófa hann í dag. Greip þennan þar sem reykbjórar eru dálítið skemmtilegur bjórstíll og hafa ekki sést úr íslensku brugghúsi til þessa.
Sá harði myndi segja: Bjór þessi er dökkbrúnn eða dimmrauður í glasi, eins og rauðvín með froðu. Froðan hverfur frekar fljótt og er dálítið sápuleg að þéttleika. Froðan hangir þó í glasinu -lacing!! og fær bjórinn smá plús fyrir það. Í nefi er reyktur keimur, alls ekki áberandi en vel greinanlegur. minnir á mjög mild viðarkol. Fyrir bjórnördið mætti þetta vera þróttmeiri lykt en samt flott byrjun. Í munni er hann mildur, gosríkur með látlausa beiskju. Reykurinn er áberandi en langt frá því að vera allsráðandi. Þetta er meira eitthvað sem liggur í bakgrunni. Örlítill reykur í eftirbragði. Fyrir hinn harða bjórnörd myndi þessi bjór líkast til ekki fara hátt í verðlaunastiganum. Hann fær þó stig fyrir effort, þetta er amk ekki sama lagersullið sem menn virðast alltaf detta í. Ég veit þó að menn vilja mun meiri reyk, reykjarkóf alveg hreint.
Fyrir þann græna held ég að þetta sé varasamur bjór. Sá græni myndi líklega strax snúa við við merkimiðann „Reyktur bjór“ er allt of „hættulegt“. En er maður leggur í smá ævintýramennsku, lifir aðeins á brúninni og prófar þá kannski kemst maður að því að þessi reykur er mjög látlaus og ef maður spáir aðeins í það þá er þetta virkilega skemmtilegur matarbjór. T.d. með grillmeti hverskonar. Smá BBQ fílingur passar vissulega vel við á pallinum eða hvað? Já sá græni vill meina að það sé vert að prófa, bara til að hafa prófað en er hræddur um að margur grænjaxlinn muni ekki vera of kátur.
Það er virkilega gaman að borða góðan mat og enn skemmtilegra þegar maður getur gert góðan rétt enn betri. Það er t.d. hægt með því að sötra eitthvað ljúft með. Nú er loksins komið sumar hér á klakanum og því má búast við að landsmenn fari að taka fram grillið og brasa eitthvað gott. Humar er vinsæll á grillið og þá tala menn og konur oftast um humar og hvítt. Það er virkilega góð blanda, ískalt hvítvín með hvítlauksristuðum humarhölum, salt og pipar og nóóóg af smjöri ummmm! Það má þó ekki gleyma bjórnum í þessum efnum því hann býður enn einn vinkilinn og getur einfaldlega gert stórkostlega hluti fyrir humarinn.