Humlar og hamingja!

Humlar og hamingja!

Single Hop serían frá Mikkeller.

Ég veit að það eru margir bjórspekingar sem detta hér inn og hafa ýmsar hugmyndir um það sem hér fer fram.  Menn hafa reyndar verið heldur feimnir við að nota „tjáningarkerfið“ hér og væri gaman að fá líflegri umræður.  En síðan er nýkomin í loftið svo við verðum alveg rólegir.  Nú er það svo að ég leita til ykkar lesenda með aðstoð.  Ég er kominn með single hop seriuna frá Mikkeller í hendur en er í stökustu vandræðum með hana.  Auðvitað gæti maður farið „ánægjuleiðina“ og bara smakkað þetta einhvern vegin og skrifað eitthvað um hvern og einn bjór eða í heildina.  Hins vegar langar mig virkilega að nota tækifærið og kynnast þessum humlum betur.  Marga þekkir maður en suma hefur maður bara aldrei smakkað í bjór áður.  Ég er bara í vandræðum með hvernig ég á að ráðast í þetta verkefni.  Helst þyrfti maður að smakka þetta allt á sama deginum svo samanburðurinn væri sem marktækastur en þá kemur vissulega ölvun til sögunnar.  Ef ég smakka þetta á nokkrum dögum þá er maður ekki alveg með samanburðinn.  Ég hef ákveðið að taka bara 2-3 saman á einum degi.  Reyni að tefla saman áhugaverðum humlum, t.d. í dag Cascade vs Simcoe þar sem mig langaði að finna muninn á þessum tveim.  Hefði samt viljað Amarillo og Centennial einnig.  Í gær langaði mig að reyna hinn leiðinlega að mínu mati Saaz humal á móti Nugget.  Greip svo Warrior síðar um kvöldið.  Væri mjög þakklátur fyrir ykkar álit á pörunum, eitthvað sem er kannski virkilega frábrugðið eða akkúrat öfugt, svipað eins og simcoe og cascade.

Með fyrirfam þakkir.

Arh Hvad? Mikkeller Orval klónn

Arh Hvad? Orval klónn frá Mikkeller

Bjór þessi hefur valdið nokkru fjaðrafoki á fésbókinni okkar.  Menn heitir í umræðunni um bjórinn en líkast til allt byggt á dálitlum misskilningi og kannski stríðni.  Bjórinn er enn eitt fóstur Mikkeller. Um er að ræða dálítið spes bjór sem á að vera óður til Orval sem er einn af uppáhalds bjór Mikkels.  Oravl er belgískur Trappist bjór á súrum nótum.  Stílinn kallar hann Belgian Pale Ale sem er svo sem ágæti spæling því ekki getur hann kalla hannTrappist 🙂  Nafnið á bjórnum er orðaleikur og kannski erfitt að skilja nema maður sé vanur danskri tungu.  „Arh Hvad?“ hljómar í munni Danans dálítið eins og „Ogh Val“ eða bara Orval.  Þannig er leikurinn gerður.  Hér má sjá hvernig bera á fram nafnið, sjálfur Mikkel kemur þarna fyrir meira að segja http://www.youtube.com/watch?v=kpa8KEPZ9og&feature=youtu.be.

Nóg um það, nú hef ég smakkað þennan bjór amk 5 sinnum.  Í fyrsta sinn þá var það eftir 4 freyðivínsglös og tvo bjóra á Kex.  Það er kannski þess vegna sem hann virkaði ekkert sérlega spes í upphafi.  Góður bjór, ekta brett, ferskur og fínn.  Mikkeller hefur gert ansi marga „brett baseraða“ bjóra til þessa.  Villigerið setur mjög einkennandi mark á bjórinn og því er oft um keimlíkan bjór að ræða.  Þessi virkaði einfaldlega ekkert sérstakur í röðinni.

Álit mitt hefur sannarlega breyst eftir nákvæma smökkun með hreina pallettu.  Þetta er kannski gott dæmi um það sem ég hef oft sagt, sami bjórinn getur verið mismunandi eftir við hvaða tækifæri hann er smakkaður.  Nóg um það.  Bjórinn er stórglæsilegur í glasi, hnausþykk froða sem grípur dauðahaldi í glasveggina.  Endist allan bjórinn.  Í nefi er villigerið áberandi með sinn súra ferska blæ, lítið fer fyrir humlum.  Minnir þarna strax á Orvalinn.  Í munni er hann bragðmikill og ferskur.  Töluvert súr og brettaður.  Sítrus keimur og ögn humlar í restina.  Fylling er í meðallagi og svo er einhver bakgrunnur sem ég átta mig ekki alveg á.  Salt? Ristað malt? Ég veit ekki alveg.  Bjórinn er bara stórgóður, það er kannski það mikilvægasta og hann fæst hér í Vínbúðinni góðu.  Um samlíkinguna við Orvalinn þá vil ég sem minnst tjá mig að svo stöddu, það er orðið langt síðan síðasti Orval var drukkinn hér á bæ.  Hann minnir þó óneitanlega á hann en ég þarf eiginlega að smakka þá saman til að fara nánar út í það.

Þessi gæti komið skemmtilega út með grilluðum humar.

Sá græni: Flottur bjór, mattur og ósíaður.  Flott þétt froða.  Í nefi skrítin súr lykt en frískandi.  Í munni mjög skrítinn bjór fyrir þá sem ekki eru vanir bjórfikti.  Mjög forvitilegur bjór samt.  Súr og þurr og minnir á mysu.  Það er ekki víst að menn elski þennan í fyrstu, alls ekki.  Gott að hafa það í huga.

Hvert í hoppandi!

Image

Single hop serían frá Mikkeller

Humlar eru til í ýmsum gerðum og geta verið afar mismunandi bæði hvað varðar bragð og biturleika.  Eins gefa þeir mismikinn angann í bjórinn og jafnvel lit.  Það getur stundum verið erfitt að átta sig á nákvæmlega hvað ákveðinn humall er að gera fyrir þann bjór sem maður er að drekka.  Oft er nefnilega notuð blanda af humlum í bjórinn.  Eitt er þó víst að án humla væri bjór ódrekkandi, sætur og líflaus.  

Mikkeller hóf fyrir nokkrum árum síðan að leika sér með humlana og byrjaði að brugga India Pal Ale (IPA) og nota aðeins eina gerð af humal í bruggunina.  IPA eru þekktir fyrir að vera beiskir og gera humlunum góð skil og því tilvalinn grunnur í svona tilraunir.  Þegar þetta byrjaði fyrir nokkrum árum síðan náði ég að smakka 4 tegundir. Virkilega skemmtilegt þar sem allt annað er eins í bjórnum nema humallinn.  Ég hélt reyndar að þeir myndu svo bara hætta þessu en aldeilis ekki.  Í dag eru komnir amk 20 mismunandi bjórar, þ.e.a.s 20 mismunandi humlar.  Ekki nóg með það að þegar þetta er ritað er hægt að kaupa þessi herlegheit hér á Íslandi.

Já þetta er einstakt tækifæri fyrir þá sem eru að reyna að átta sig á mismunandi eiginleikum humalsins og þá kannski sérstaklega þá sem eru að fikta við heimabruggið
Fyrir áhugasama þarf að bregðast skjótt við, takmarkað upplag er til af þessu skilst mér og það þarf að panta alla 20 bjórana í einu í gegnum sérpöntunarkerfi vínbúðanna.