Citrus Dream á Kexinu NÚNA!!!

Nýr pilsner frá Mikkeller, Citrus Dream

Nýr pilsner frá Mikkeller, Citrus Dream

Ég fór á Kexið í gærdag til að næla mér í Mikkeller 19 áður en hann kláraðist.  Mér líkaði svo vel við bjórinn að ég dró frúnna sem er mikil bjórkona aftur á Kexið um kvöldið til að smakka.  Því miður var 19 búinn á flotta krananum en í staðinn kominn undir Mikkeller Citrus Dream sem er alveg glænýr bjór frá Mikkeller.  4.6% pilsner sem bruggaður er með Citra humlinum og svo appelsínu og sítrónuberki.  Þeir nota enn fremur maís og hafra í bjórinn.  Flottir! Þessi bjór er fallegur í glasi, tær og glæsilegur eins og sönnum pilsner sæmir. Í nefi er ávaxtasprenging þar sem mangó er í aðalhlutverki og svo snefill af appelsínu og örlítið ristað malt.  Í munni er svo allt annað uppá tengingnum.  Maður finnur vissulega að þetta er ekki öl, það er þetta pilsner/lager yfirbragð sem þið áttið ykkur á þegar þið smakkið sjálf.  Það er einnig nokkur ávaxtakeimur sem þó ekki er eins áberandi og í nefi.  Hann er dálítið rammur, sítrusbörkur og furunálar.  Nær þó ekkert í áttina að IPA í beiskjunni enda alls ekki tilgangurinn.  Bjór þessi er algjörlega málið núna, sérstaklega í dag í svona sól og hita.  Frábær sumarbjór sem vert er að eltast við en það er um að gera að vera fljótur til því kauði klárast líklega fljótt eins og Mikkeller 19.

Sá græni er voðalega ánægður. Hér er kominn bjór sem bragð er af án þess að hann sé of mikill.  Rosalega flott ávaxtalykt og sæta.  Í munni er þetta svo bara eins og lagerinn nema bara með meiri snerpu og ávöxtum.  Ég tel að allir geti notið þessa bjórs án vandræða.

Mikkeller 19 – búinn á Kexinu

20130723-174810.jpg

Mikkeller 19, kominn og farinn!

Mikkeller 19 kom undir krana á Kexinu sl föstudag en nú er hann því miður búinn.  Já þessi staldraði furðu stutt við og ég vona að sem flestir sem lásu tilkynningu mína um daginn hafi náð að smakka. Sjálfur var ég svo heppinn að ná að smakka hann eftir næturvaktatörn alla helgina.  Kannski er maður óheppinn að hafa smakkað hann og kominn á bragðið og ekkert eftir?  Veit ekki.  Bjórinn er amk stórgóður.  Um er að ræða IPA sem hefur að geyma 19 humla sem notaður eru í Single Hop verkefninu sem ég hef verið að vinna í sl daga.  Er í raun bara hálfnaður með það verkefni.

Mikkeller 19 inniheldur eftirfarandi humla í eftirfarandi hluföllum: Simcoe 17,14%Citra 15,72%, Amarillo 14,29%, Sorachi Ace 10,71%Bravo 6,79%Colombus 6,79%, Cluster 4,64%Warrior 4,64%Cascade 3,57%, Centennial 3,57%, Palisade 2,86%Challenger 1,43%, Galena 1,43%, Magnum 1,43%, Mt Hood 1,43%, Tettnanger 1,43%, Nugget 0,71%, Super Galena 0,71%, Williamette 0,71%.

Á Kexinu er bjórinn serveraður í amerísku pint glasi.  Hann er mattur í glasi og með litla látlausa froðu.  Um leið og glasinu var skellt á borð fyrir framan mig fann ég strax mikinn angann.  Blóm, sæta og ávextir.  Svo dofnaði lyktin en kom svo aftur fram þegar leið á bjórinn.  Gríðarlega flottur í nefi.  Sæta, ögn mangó og blóm en svo líka þessi klassíski furunálakeimur og sítrus.  Citra humallinn ekki eins áberandi og ég var að vonast eftir en hann er þarna. Simcoe spilar hér líklega stærri rullu.  Í munni er bjórinn mjög þægilegur og flókinn.  Maður finnur að hér eru margir þættir sem spila saman.  Hann er vel beiskur og flottur. Ljúf fylling.  Alls ekki eins „floral“ eins og ég bjóst við, eða kannski var ég bara að vona það svona nýorðinn Citrafíkill.  Simcoe og Cascade kannski meira áberandi, sítrus og furunálar. Allir taka humlarnir þátt í bragði og kannski erfitt að ætla sér að tileinka ákv humlum eitthvað ákveðið bragð.  Allt spilar þetta saman. Í eftirbragði er hann ljúfur og sætur með beiskju á móti. Fínt jafnvægi.  Átta mig ekki á sætunni, vanilla kom fyrst í hugann en samt er þetta ekki beint vanilla?  Kannski karamell fudge?  Alla vega, flottur IPA, klárlega betri en single hop bjórarnir nema kannski Citra single Hop!  Væri magnað að poppa þennan upp í imperial hæðir.  Það er súrt að hann sé farinn af krana en góðu fréttirnar eru þær að næsti bjór undir krana er afar spennandi. Citrus Dream, glænýr bjór úr smiðju Mikkeller.

Sá græni er stuttorður í dag. Bjórinn er góður, það er mikil sæt lykt og eins og fyrr hefur komið fram ávextir og einhver blóm.  Í munni er allt annað að gerast.  Töluvert beiskur og bragðmikill.  Maður þarf að vita af þessu biti svo það komi manni ekki í opna skjöldu.  Er maður er næmur má finna ávesti á tungu.

Væri gaman að heyra frá fleirum….hvernig fannst ykkur þessi, þeir sem náðu að smakka?