Bjórannáll 2013 – bjórárið yfirfarið

IMG_0965Það tíðkast hér á landi sem og víðar svona korter í nýtt ár að staldra ögn við og líta yfir farinn veg.  Annáll kalla menn þetta í fjölmiðlum.
Það er alltaf gaman að svona annálum, þá sér maður hvað árið var gott hvað væri hægt að bæta fyrir næsta ár og svo ryfjast einnig upp ljúfar stundir með öl við hönd.  Hér verður rakið það helsta sem stóð uppúr hjá Bjórspekingnum og Bjórbókinni árið 2013, bæði uppákomur og bjór.

Járn og Gler!
Í heildina litið var þetta nokkuð viðburðarríkt bjórár og menn duglegir að búa til viðburði í kringum bjórinn. Járn og Gler sótti í sig veðrið og hélt áfram að flytja inn heimsklassa bjór frá öllum heimsins hornum sem bæði var hægt að fá á flöskum í haugavís á Microbar og Bjórsetrinu en einnig á krana á Microbar, Kexinu og jafnvel Vínbarnum.  Þannig gat maður t.d. smakkað af krana To Øl Snowball Hoppy Saison  í febrúar, hann kom svo aftur á flöskum um jólin, To Øl First Frontier, To Øl Dangerously Close To Stupid Mikkeller Green Gold, 1000 IBU, Wheat is the New Hops, Mikkeller Citrus Dream, Mikkeller American Dream, Mikkeller 19, Mikkeller U Alright, Mikkeller K:rlek, Brewdog Jackhammer, Rogue Dead Guy Ale og svona mætti líklega telja eitthvað áfram.  Ég segi og stend við að þetta er einsdæmi í íslenskri bjórsögu, aldrei áður hafa jafn margir eðalbjórar verið fáanlegir á krana hérlendis.

Borg-Garún-þurrBorg Brugghús
Brugghúsin stóðu sig vel á árinu, þau voru áfram dugleg að færa okkur nýjar kræsingar og þá hefur Borg brugghús vinninginn hvað fjölda tegunda varðar.  Árið hófst með ljúfri sprengju frá þeim þegar Þorrabjórinn var kynntur.  Surtur 15  sem reyndar voru nokkur vonbrygði en á sama tíma koma Surtur 8.1 sem er tunnuþroskaður ársgamall imperial stout.  Svakalegur bjór sem er einn af þessum eftirminnilegu á árinu. Borg átti marga aðra góða á árinu og ber í því samhengi að nefna páskabjórinn Júdas (fyrsti íslenski Quadrupelinn), hinn flotta Oktoberfestbjór, Teresa (India Red Ale) og svo hinn frábæra Garún sem er með betri imperial stout bjórum sem undirritaður hefur smakkað og gríðarlega sorglegt að hann eða hún skuli aðeins vera flutt til Ameríku.    Í þessari upptalningu má svo ekki gleyma DIPA útgáfunni af Úlfi sem þeir kalla Úlfur Úlfur.  Þetta er fyrsti bjórinn sem ég smakkaði frá Borg þegar þeir voru bara að stíga sín fyrstu skref.  Fékk smakk af krana í Bjórskólanum á sínum tíma og eftir það varð ég pínu skotinn í þessu litla brugghúsi í brugghúsi. Loksins kom karlinn svo á flöskur og krana í lok apríl á þessu ári sem árstíðarbjór reyndar og staldraði því aðeins stutt við.  Bjór þessi sýndi glöggt hversu megnugir bruggmeistarar Borgar, þeir Stulli og Valgeir, eru.  Virkilega flottur DIPA sem gaman verður að fá aftur á næsta ári.
Allir snillingar eiga svo sín vondu móment, það er bara eðlilegt.  Surtur 15 var svo sem langt frá því að vera vondur, hann stóðst hins vegar ekki alveg væntingar undirritaðs sem líklega var að vonast eftir einhverju svipuðu og Surt 8 og svo var það Stúfur, létti jólabjórinn.  Sæmileg hugmynd en alls ekki góður drykkur því miður.

Ölvisholt
Ölvisholt brugghús hefur svo legið dálítið í dvala um skeið en nú er kominn nýr og ferskur bruggmeistari á þeim bæ, Árni Long og vonir standa til þess að nú fari allt á flug aftur hjá þessu flotta brugghúsi.  Hann sýndi Íslendingum og reyndar veröldinni í kring heldur betur að hann kunni sitt fag þegar haustbjórinn Skaði leit dagsins ljós en Skaði sem er belgískur sveitabjór (Saison) er líklega með bestu íslenskra bjóra.  Röðull IPA kom einnig frá þeim á árinu, vandaður IPA og skemmtileg viðbót við flóruna.  Við verðum svo að vona að Árni sýni okkur eitthvað meira spennandi á næsta ári, hlakka til.

Viðburðir
Menn voru óvenju uppátækjasamir á árinu.  Fyrst var það auðvitað hin nú orðið árlega bjórhátíð á Kexinu undir lok febrúar.  Þar mættu helstu brugghús landsins ásamt Járn og Gler með smakk frá Mikkeller og fleirum.  Það er alltaf gaman að mæta þarna og reka tungu í eitthvað sem menn eru jafnvel að leika sér með á tilraunastigi.  Þannig sló Borg í gegn með flottan Tripel sem reyndar aldrei leit dagsins ljós nema kannski sem Ástríkur á Gay Pride? Einnig fékk maður að bragða á Surtinum frá því í fyrra og ef ég man rétt Úlf Úlf? Mjög gaman.

Svo er það Bjórsetrið á Hólum, ég hef reyndar ekki enn komist í að skoða þá félaga þarna fyrir Norðan en mun vonandi gera það á nýju ári enda ku úrval bjórs vera þar með besta móti. Það er hins vegar klárt mál að undirritaður mun reyna að skella sér á bjórhátíð á Hólum á komandi ári, en þessi hátíð er nú orðin hefð og hefur sætt mikilla vinsælda síðustu ár.

IMG_2490Mikrobar hélt uppteknum hætti á árinu og var klárlega sá staður þar sem best var að vera fyrir björnördinn.  Það duttu stöðugt inn nýjir bjórar  bæði í hillur og á krana. Þetta var bæði eðalöl frá flottustu brugghúsum heims sem og bjór frá innlendum brugghúsum. Gæðingur kom þannig fram með nokkrar skemmtilegar tilraunir úr sínum smiðjum á krana og má þar nefna nýjan DIPA og Barley Wine sem báðir eru á krana þar þegar þetta er skrifað.
Kynningarkvöldin héldu áfram á Microbar en þessi kvöld hafa verið ansi vinsæl á síðasta ári.  Þannig gat fólk smakkað og fræðst um bjórinn frá Mikkeller,  Evil Twin og Amager brugghús. Hápunkturinn hins vegar og líklega flottasti viðburður ársins var svo Battle of the twins tap takeover núna í Desember byrjun þar sem allir kranar barsins voru tengdir við dásamlegar veigar frá Mikkeller og Evil Twin. Það var á þessu kvöldi sem undirritaður smakkaði þann bjór sem stendur mest uppúr á árinu Mikkeller Santas Little Helper 2012 Barrel Aged CognacEdition!

Borg brugghús átti skemmtilegt moment í júní þegar þeir framkvæmdu borgaralega yfirtöku á English Pub.  Þar lögðu þeir Borgar menn undir sig nokkra krana hússins með ljúfu eðalöli sínu.  Það var þarna sem menn gátu smakkað Ástrík af krana á fáránlega lágu verði svona rétt fyrir Gay Pride.  Virkilega skemmtileg uppátæki og vonumst við til að sjá fleiri svona á nýju ári.

Undirritaður var líka nokkuð sáttur við bjórmánuðinn á Kaffibarnum í ágúst en þar mað var hægt að drekka besta bjór á landinu á meðan maður hlustar á dásamlega house tónlist…gerist vart betra.  Ef mér skjátlast ekki þá verður þetta endurtekið á nýja árinu og mun ég ekki láta mig vanta þar.

Bjórnördinn dúllar sér.
Við vorum dugleg að kanna heimin á árinu og auðvitað bjórinn í leiðinni.  Við fórum til Barcelona, London, Oxford og loks hina árlegu ferð til Stockholm í desember.  Allt voru þetta eftirminnilegar ferðir og það bættist heldur betur í bjórbókina góðu. Það sem stendur uppúr í þessum ferðum er klárlega Brewdog bar í Camden, Brewdog bar í Stokkhólmi og Ale and Hops í Barcelona.  Sárast var þó að missa af The Drunk Monk á Spáni sem var lokaður og auðvitað hina árlegu ofurbjórhátíð í Köben CBC 2013.  Fer vonandi 2014!

Það er svo ekki hægt að skrifa annál án þess að koma inn á heimabruggið.  Já Bjórspekingurinn ákvað að hefja loksins heimabruggun ásamt tveim félögum eftir langt hlé.  3G Brewlab er yfirskriftin og það sem af er ári hafa 4 bjórar litið dagsins ljós en næsta ár mun klárlega sjá marga flotta 3G bjóra og er m.a. fyrirhugað að gera Imp Stout, DIPA og eitthvað súrt kannski líka.
BrewdogLoks er það bjórinn sjálfur, líklega það sem menn kannski helst vilja vita.  Það var mikið nýtt smakkað á árinu og hef ég ekki tölu yfir fjöldan.  Það er svo sem í lagi, þetta var mjög gott smakkár og margar dásamlegar perlur komnar í bókhaldið.  Það er alltaf dálítið erfitt að tala um „best“ þegar kemur að bjór því „mómentið“ hverju sinni og jafnvel félagsskapurinn skiptir svo miklu máli. Ég ætla þó að reyna að lista hér upp þá bjóra sem standa uppúr á árinu.

1.  Mikkeller Santas Little Helper 2012 Barrel Aged Cognac Edition af krana á Microbar er líklega sá bjór sem ég var hvað mest hrifinn af á árinu.  Svakalegur bjór…þvílík upplifun, ég á ekki orð.

2. Brewdog San Diego Scotch Ale á flösku á Hótel Ion. Þvílíkur bjór, ég á reyndar pínu bágt með að gera upp á milli þessa bjórs og Santas Little Helper.  Ég var eiginlega búinn að gleyma þessum, ummmmm.

3. Brewdog/Evil Twin Hello my Name is Sonja af krana á Brewdog í Stokkhólmi.  Ofsalega flottur DIPA með haug af humlum og bláberjum, svakalegur bjór.

4. Brewdog Paradox Jura er svo enn eitt undrið frá Brewdog.  Svakalegur Imperial Stout sem hefur alveg akkúrat það sem ég vil hafa í þessum stíl.  Sætuna en þó ekki of mikla sætu

5. Evil Twin Biscotti Break Imperial Stout á flösku yfir áramótin.  Svakalega flottur imperial Stout, vínlegir tónar og vanilla í nefi, komplex á tungu, þéttur og dásamlegur.

6. Brewdog/Tempest  Marmelade on Toast (6% pale ale) af krana á Brewdog Stokkhólmi.  Gríðarlega skemmtilegur IPA, flott fylling, notalegir humlar og svo eitthvað marmelaði gúmmilaði.

7. B Saison black laber frá litlu sænsku brugghúsi Brekeriet á flösku á Brewdog í Stokkhólmi.  Frábær kryddaður, humlaður og funky brettanomyces Saison.  Svakalegur.

8. Mikkeller Arh Hvad barrel aged af krana á Microbar.  Ferskur, þroskaður, flókinn, funky og fallegur.

9. Brewdog Jackhammer af krana á Brewdog Camden London.  Frábær IPA, ofsalega humlaður og potent.

10. Founders Backwoods Bastard, þroskaður á eik.  Ofsalega flottur bjór sem fæst hér á landi núna á fáránlegu flottu verði.

10,5. Borg Brugghús Garún imperial Stout á flösku í Reykjavík.  Magnaður imperial stout sem hefur allt sem ég vil hafa.  Þéttur, mikill með akkúrat þá sætu sem þarf.

Að lokum verð ég svo að bæta við mestu vonbrigði ársins, þau voru nú ekki mörg að þessu sinni en þó á sínum stað. ATH ekki er um neina sérstaka röð að ræða, efst er ekkert endilega verst.

1. To Øl/Buxton Collab Carnage IPA. Ekki vondur bjór en ekki þess virði að eltast við.  Þvílík læti sem voru í kringum komu hans á barina í Evrópu, það mætti halda að hér væri kominn eitthvað furðuverk frá öðrum hnöttum.  Reyndin var svo ósköp venjulegur IPA.

2. Evil Twin Christmas Eve At a New York City Hotel Room. Hér er svo sem ekki við neinn að sakast nema mig sjálfann.  Lýsingar og lof lofuðu mjög góðu og því varð ég pínu svekktur þegar um var að ræða ósköp venjulegan imp stout af þeim toga sem ekki henta mínum bragðlaukum.

3. 3G Brewlab Monks Dirty Little Christmas Seceret.  Já þetta er mitt eigið fóstur en maður verður þó að vera kröfuharður á eigið stöff.  Já jólabjórinn minn í ár klikkaði heldur betur.  Þetta er svo sem ekki vondur bjór hann er bara ekki alveg það sem ég vildi ná fram.  Kannski verður hann tilbúinn eftir svona 6-12 mán. Ætla að setja hann í gleymsku til næstu jóla.

4. Brewdog Abstract BeerAB 12. Þessi voru líklega stóru vonbrigði ársins.  Alls ekki góður bjór og alls ekki 3000 kr virði.  Líklega ekki tilbúinn bara.  Mæli með að geyma þennan eitthvað áfram.

5. Mikkeller Nelson Sauvignon. Þessi fær svakalega dóma á Ratebeer og víðar.  Hlakkaði mikið til að smakka.  Ég plataði eiginlega félaga minn Hauk Heiðar (ekki Leifsson) með mér í þessi kaup.  Varð pínu svekktur, bjórinn er ekki vondur, en hann féll ekki alveg í kramið hjá okkur félögum.  Kom mér verulega á óvart.  Ég veit að nú verður allt vitlaust en ég fékk annað tækifæri til að smakka kauða þegar félagi minn Steini bauð mér í kollu á Microbar.  Hann var þá fjandi góður og því mætti í raun segja að þessi skrif hér séu óþörf.  Hins vegar voru þetta mikil vonbrigði þegar fyrra smakkið átti sér stað og því fær þetta að standa.

Já þegar á þetta er litið allt saman þá hefur þetta bara verið nokkuð gott bjórár.  Næsta ár verður vonandi álíka spennandi.  Sjálfur mun ég reyna að bæta mig og mæta á Bjórhátíðina að Hólum og stefni á CBC 2014 í Köben.  Í apríl er svo ferð til Florid og mun þá heldur betur verða smakkað. Hlakka til að sjá hvað Borg gerir á árinu, Þorrinn að ganga í garð og svona.  Svo eru það sumarbjórarnir og bind ég miklar vonir við Ölvisholtið.  Hvað kemur nýtt frá þeim þetta árið?  Járn og Gler halda svo vonandi uppteknum hætti og hella í okkur eðlölið áfram, kannski fáum við enn meiri lúxus frá Founders sem rétt duttu í sölu fyrir jólin.
Já þetta verður flott bjórár…finn það á mér.

Láttu það flakka!

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s