Kölsch! Nýr gestur á krana á Microbar.

Kölsch

Kölsch hið þýska föl öl á krana á Micro núna!

Nýr bjór frá Gæðingi er á gestakrana núna á Microbar.  Um er að ræða mildan og ljúfan lager með sumarlegum blæ af gerðinni kölsch. Steini á Micro segir að í bjórinn sé notað bæði lagerger og ölger sem gerir þetta eins konar lager/öl blending. Bjórinn virðist ósíaður í glasi og heldur dökkur fyrir Kölsch stílinn.  Í nefi er hann með sætum blæ og hunang greinanlegt. Hann er mildur á tungu, fín fylling.  Það er þægilegur humalbragur yfir honumog dálítið krispí og hressandi.  Beiskja jafnast þó nokkuð vel út með sætu og hunangskeim.  Örlítið ávaxtabragð einnig. Allt í allt flottur bjór hjá þeim, ekkert stórverkefni fyrir óharðnaða.  Sá græni myndi taka vel í þennan bjór sem á vel heima á krana yfir sumartímann.  Hann er kannski ekki alveg klassískur Kölsch en hugmyndin góð.  Mæli með þessum bjór fyrir alla.

Stíllinn er þýskur að uppruna og á rætur sínar að rekja til borgarinnar Köln í Þýskalandi. Um er að ræða ljósasta bjórstíl Þýskalands sem sprottinn er af öðrum þýskum stíl Altbier á 19. öld. Kölsch er stundum kallaður hið þýska föl öl eða pale ale.  Altbier er dekkri bjór af gerðinni öl með koparlit en þegar menn náðu tökum á að stjórna betur ristuninni á bygginu gátu menn skapað mun ljósari öl. Kölsch er útkoman.  Í bjórinn er notað sérstakt ölger, yfirborðsger sem þýðir að stíllinn er í raun öl en svo er gerjunin látin malla við kaldar aðstæður og bjórinn þannig kaldgerjaður líkt og lagerbjór og svo er hann látinn þroskast eða „lageraður“ við frostmark um skeið.  Við þessar aðstæður leysir gerið ekki mikið af sínum bragðmiklu esterum úr læðingi og bragð verður milt og látlaust.  Klassískt hefur bjór þessi þó líkt og Altbier dálitinn ávaxtakeim.  Það má því segja að stíllinn sé öl/lager blendingur þó svo að strangt tiltekið sé um öl að ræða og bruggarar myndu ekki taka í mál að kalla bjórinn þeirra lager.  Það má til gamans geta að Kölsch er mjög local bjórstíll.  Líkt og kampavínið sem aðeins er „ekta“ ef það kemur  frá Champagne í Frakklandi þá eru aðeins örfá brugghús í og umhverfis Köln sem brugga bjór sem má kallast ALVÖRU Kölsch.

Mikkeller 19 á krana

Mikkeller 19 á krana

Nánast öll single hop serian samankomin í einum bjór!

Ég verð bara að segja að ef ég væri ekki að fara á næturvakt í nótt og alla helgina þá væri ég á leið á KEX.  Það er bara ekki nokkur spurning.  Ástæðan er einföld, Mikkeller 19 á krana!  Já ég hef verið í hardcore humal rannsóknum síðustu daga þar sem ég hef verið að vinna mig í gegnum þá 20 bjóra sem fyrirfinnast í svo kallaðri single hop seriu frá Mikkeller. Það hefur kannski ekki farið framhjá mörgum þar sem ég hef póstað grimmt á fésinu hvert skref.  Nú er ég rétt um hálfnaður og þegar búinn að uppgötva nokkra „VÁ!“ humla sem ég þarf að skoða nánar.  Tékkið endilega á þessu Stóra einstaka humalverkefnið með einstökum stökum humlum.  Mikkeller 19 er sami IPA grunnurinn og notaður er í Single Hop Seriuna en í stað þess að nota einn humal hafa þeir sett 19 af þeim 20 sem í seriunni eru í mismunandi hlutföllum í bjórinn. Þetta er auðvitað bara alveg magnað.  Hér má sjá hvaða humlar þetta eru og hlutföllin.  Ég hef grænletrað þá sem ég hef þegar smakkað sem einstaklinga.

Þetta er alvöru innihaldslýsing:
Simcoe 17,14%, Citra 15,72%, Amarillo 14,29%, Sorachi Ace 10,71%, Bravo 6,79%, Colombus 6,79%, Cluster 4,64%, Warrior 4,64%, Cascade 3,57%, Centennial 3,57%, Palisade 2,86%, Challenger 1,43%, Galena 1,43%, Magnum 1,43%, Mt Hood 1,43%, Tettnanger 1,43%, Nugget 0,71%, Super Galena 0,71%, Williamette 0,71%.

Sjálfur hef ég ekki komist í þennan en því verður kippt í liðinn nk mánudag 🙂  Skál.  Nú vil ég fá að heyra hvernig ykkur líkar.